Wilson Skaw: fær skipið ekki að koma til hafnar á Hólmavík?

Wilson Skaw við Hólmavíkurhöfn. Mynd: aðsend.

Flutningaskipið Wilson Skaw sem strandaði við Ennishöfða liggur við akkeri utan við Hólmavíkurhöfn. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að komið hafi beiðni um að fá að leggja það við akkeri innan hafnarmarka og hefði hún verið samþykkt. Ekki hefði verið óskað eftir heimild til þess færa skipið að bryggju.

Á mánudaginn sendi sveitarstjórinn frá sér tilkynningu vegna frétta um að skipið yrði fært til Hólmavíkur þar sem segir að  „engin formleg ákvörðun hefur verið tekin af sveitarstjórn Strandabyggðar varðandi komu Wilson Skaw til Hólmavíkur, hvað svo sem verður.“

Í gær var því bætt við að „ekki hefur komið til álita að taka skipið upp að bryggju, enda ristir það dýpra en höfnin leyfir (6,0 m), eins og eflaust margir hafa tekið eftir er skipið djúprist að aftan um 6,8 metra og ekki hægt að breyta því þar sem göt eru komin á tanka skipsins að framan  sem venjulega eru fylltir af sjó til þess að rétta af djúpristuna.“ Þá segir að til álita hafi komið að færa farminn til í skipinu til þess að minnka djúpristuna að aftan og koma því til hafnar en engin ákvörðun hafi verið tekin um það , hvorki af útgerð né björgunaraðilum.

Leitað var svara hjá Landhelgisgæslunni um  þetta en engin svör hafa borist.

DEILA