Þann 2. maí næstkomandi er fyrsti dagur strandveiða. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælaráðuneytinu verður reglugerð um veiðarnar gefin út í byrjun næstu viku og í kjölfarið opnað fyrir umsóknir hjá Fiskistofu.
Þar sem ólíklegt verður að telja að nýtt frumvarp um strandveiðar verði samþykkt á næstu dögum eru allar líkur á því að strandveiðar verði með sama hætti og þær voru í fyrra.
Að óbreyttu verður heimilt að veiða allt að 10 þúsund tonn af þorski. Það er sama magn og lagt var af stað með í fyrra, en þegar líða tók á vertíðina var bætt við 1.074 tonnum.