Minningarorð forseta Alþingis um Sigurlaugu Bjarnadóttur, fyrrverandi alþingismann á þingfundi mánudaginn 17. apríl 2023

Miðvikudaginn fyrir páska, 5. apríl, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni hér í borg Sigurlaug Bjarnadóttir, fyrrverandi menntaskólakennari og alþingismaður, á 97. aldursári, elst allra fyrrverandi þingmanna.

Sigurlaug var fædd í Vigur í Ísafjarðardjúpi 4. júlí 1926. Foreldrar hennar voru Bjarni Sigurðsson og Björg Björnsdóttir sem þar bjuggu rausnarbúi.

Að loknu stúdentsprófi nam Sigurlaug ensku og frönsku við háskóla í Bretlandi og Frakklandi. Hún starfaði sem blaðamaður um tíma, snemma á starfsferlinum, en kennsla varð ævistarf hennar sem hún stundaði lengst af sem tungumálakennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, en þar hóf hún störf árið 1967.

Stjórnmálaþátttaka Sigurlaugar hófst árið 1970 er hún varð borgarfulltrúi í Reykjavík en það var í aðdraganda þingkosninganna 1974 sem hún bauð sig fram á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi, náði kjöri sem landskjörinn þingmaður, varð ein þriggja kvenna sem áttu sæti á Alþingi að kosningum loknum og níunda konan sem kjörin var til þingsetu frá upphafi.

Sigurlaug Bjarnadóttir sat á fimm löggjafarþingum á árabilinu 1974–1978 og var varaþingmaður á fjórum þingum snemma á 9. áratug síðustu aldar. Alls sat hún því á níu löggjafarþingum.

Sigurlaug var sjálfstæð í skoðunum og fylgin sér á vettvangi stjórnmálanna. Í aðdraganda kosninga 1983 urðu deilur um framboðsmál Sjálfstæðismanna í Vestfjarðakjördæmi til þess að hún leiddi sérframboð í kjördæminu. Fékk það talsverðan stuðning en þó náði Sigurlaug ekki kjöri. Um þessa atburði skrifaði hún síðar bók sem veitir innsýn í pólitísk átök þessa tíma.

Mennta- og heilbrigðismál voru Sigurlaugu hugleikin og sinnti hún þeim meðan á þingsetu hennar stóð ásamt ýmsum brýnum málefnum Vestfjarðakjördæmis á sviði samgangna og atvinnumála.