Kvótasetning grásleppu: varaþingmaður Vinstri grænna gagnrýnir frumvarp ráðherra flokksins

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi gagnrýndi á Alþingi í síðustu viku harðlega áform um kvótasetningu á grásleppuveiðum og vísaði til þess að þingflokkur Vinstri grænna hafi á síðasta kjörtímabili verið á móti drögum að frumvarpi Kristjáns þórs Júlíussonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra um sama efni.

Á þriðjudaginn í síðustu viku var til fyrstu umræðu frumvarp Svandísar Svavarsdóttir, matvælaráðherra um kvótasetningu grásleppuveiða. Lilja Rafney, sem þá leysti Bjarna Jónsson alþm. Vinstri grænna í kjördæminu af í þingstörfum tók til máls og gagnrýndi frumvarpið harðlega. Sagði hún kvótasetninguna vera einkavæðingu á þjóðareign og þar að auki erfanlega. Gaf hún lítið fyrir ákvæði í frumvarpinu um hámark veiðiheimilda og sagði reynsluna af sambærilegu ákvæði í kvótakerfinu ekki hafa stöðvað samþjöppunina í greininni.

Lilja Rafney kallaði eftir upplýsingum um þær rannsóknir sem farið hefðu fram til undirbúnings kvótasetningu grásleppuveiða og sagði veiðina síðustu ár ekki hafa náð því hámarki sem Hafrannsóknarstofnun hefði lagt til og af þeim sökum væri engin þörf á kvótasetningu. Afleiðingin af kvótasetningunni myndi vera aukinn kostnaður fyrir nýliða á grásleppuveiðum og hagnaður í vasa þeirra sem myndu hætta og selja sig út úr greininni.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra sagði frumvarpið nú vera ólíkt því sem þingflokkur Vinstri grænna var andvígur á síðasta kjörtímabili. Gert væri ráð fyrir að gefa út kvóta á sjö staðbundnum veiðisvæðum og mætti ekki framselja kvóta milli svæða. Þá væri dregin frá 5,3% kvótans sem nota ætti í endurgjaldslausan nýliðastuðning. Kvótasetningin á hverju svæði miðaðist við þrjú bestu ár á tímabilinu 2014 – 2022 og tæki gildi 1. september 2023. Hún sagði stjórnun veiðanna hingað til hafa verið gagnrýnda fyrir að vera ómarkvisa og nýja tilhögunin myndi stuðla að betri stýringu, minni meðafla og sjálfbærari nýtingu grásleppunnar.

Að umræðunni lokinni var frumvarpinu vísað til atvinnuveganefndar.

DEILA