Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna: Villimey fékk tvenn verðlaun

Stuttmyndin Villimey var valin besta myndin og einnig með besta handritið á kvikmyndahátíð framhaldsskólanna sem haldin var um síðustu helgi í Bíó Paradís í níunda skiptið.

Höfundur og leikstjóri er Diljá Jökulrós Pétursdóttir frá Ísafirði og hér kemur kynning á henni.

En hver er Diljá Jökulrós?

Hvar ertu fædd og hvar ólstu upp?

Ég fæddist á Ísafirði en ólst mestmegnis upp í Reykjavík

Af hverju kvikmyndatækninám?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að taka myndir alveg frá því ég var smákrakki, ég man eftir mér stoppa þegar eg sá einhvað fallegt og taka myndir með augunum, síðan seinna meir var það klippingin í kvikmyndum, sem ýtti mér til þess að sækja um.

Um hvað er stuttmyndin?

Hún er ,,draumkennd frásögn af lífi ungra stúlkna í litlu sjávarþorpi, snemma á níunda áratugnum, sem þrá ekkert heitar en að komast undan erfiðum heimilisaðstæðum og yfir landsteinanna“.

Myndir þú mæla með Kvikmyndatækninámi og hvers vegna?

Ég mæli eindregið með kvikmyndatækni hjá Jonathan Devaney, ég gæti ekki verið sáttari með kennsluna sem ég fékk frá honum. Mikið verklegt nám og harka sem endurspeglar lífið í bransanum og allt sem hann hefur kennt mér er að nýtast mér rosalega vel í verkefnum sem ég hef fengið eftir útskrift.

Er eitthvað lífsmottó sem þú vilt deila með lesendum?

Enginn getur allt en allir geta eitthvað. Og það er allt í góðu að taka sinn tíma í að finna sitt hlutverk í lífinu, meðan þú leggur þig allan fram í það sem þú ert að gera.

Uppfært 19.4. kl 13:21: samkvæmt upplýsingum frá Diljá fékk myndin 4 verðlaun, fyrir besta handrit, bestu mynd, leikkonurnar fengu bestu aðalhlutverkin og Hildarverðlauninn fyrir bestu frumsömdutónlistina sem tónlistarmaðurinn Emil Emilsson samdi.

DEILA