Íþróttafélagið Vestri: 18 m.kr. hagnaður af rekstri

Aðalfundur Vestra var á dagskrá í gær og hefur ársreikningur félagsins fyrir síðasta ár verið birtur. Liðlega 18 m.kr. hagnaður varð af rekstri íþróttafélagsins Vestra á síðasta ári. Tekjur félagsins urðu 186 m.kr. og rekstrargjöld 166 m.kr. Fjármagnskostnaður varð 1 m.kr. Um er að ræða samanlagðan reikning aðalstjórnar og deilda félagsins. Árinu áður varð tap af rekstrinum 10,5 m.kr.

Framlög og styrkir námu 131 m.kr. og voru langhæsti tekjuliðurinn. Næst komu æfingagjöld sem voru 14 m.kr. og fjáraflanir 12 m.kr. Lotto og getraunir skiluðu 6 m.kr. og 5 m.kr. fengust í ferðastyrki.

Útgjaldamegin voru laun og verktakagreiðslur langhæsti liðurinn eða 85 m.kr. Félagaskipti og sala leikmanna skilaði hins vegar rúmum 2 m.kr. og ganga til lækkunar á kostnaði. Ferða- og uppihaldskostnaður varð 48 m.kr. Íbúðir og bílar kostuðu 13,5 m.kr. og kostnaður vegna fjáraflana varð nærri 8 m.kr. Rekstur skrifstofu kostaði 5,5 m.kr. og þátttaka í mótum 5,3 m.kr.

Eignir voru bókfærðar á 47 m. kr. um síðustu áramót og skuldir voru tæpar 15 m. kr. Eigið fé félagsins var því um 32 m.kr. í árslok.

Langstærstur hluti tekna og kostnaðar er vegna knattspyrnudeildar en ekki kemur fram hversu mikill hann var af heildarumsvifum ársins.

Í skýrslu formanns Vestra, Guðfinnu Hreiðarsdóttur kemur fram að fjármálin hafi verið tekin föstum tökum á síðasta ári. Vestri var stofnað 2016 og segir formaðurinn að í dag sé starfið komið í nokkuð fastar skorðir, deildirnar eru hver að sinna sínu án mikillar aðkomu aðalstjórnar þó að alltaf komi eitt og eitt mál inn á borð hennar.

Því miður hafi ein deildin verið nánast andvana fædd í upphafi og það er sunddeildin. „Við höfum velt örlögum hennar fyrir okkur og fáum ekki séð að hún verði endurvakin, a.m.k. ekki við núverandi aðstæður. Mögulega gæti þetta breyst ef byggð yrði ný sundlaug á Ísafirði en engar fyrirætlanir eru um slíkt. Þeir sem vilja æfa sund geta gert það í Bolungarvík þar sem er starfandi sunddeild á vegum UMFB. Á einhverjum tímapunkti munum við þurfa að taka
ákvörðun um framtíð sunddeildarinnar. Á móti kemur að ein deild hefur bæst við á þessari vegferð, hjólreiðadeildin. Þá hefur áhugafólk um lyftingar verið í sambandi við aðalstjórn og kannað möguleikana á því að stofna lyftingadeild innan félagsins. Við höfum tekið jákvætt í erindið og bara frábært að fá þennan hóp inn í félagið, ef það verður niðurstaðan. Þeim mun stærra sem félagið er, þeim mun öflugra er það.“

DEILA