Ísafjörður: samþykkt að bjóða út uppbyggingu á gervigrasvelli

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Samstaða var í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á þriðjudaginn um að bjóða út uppbyggingu gervigrasvallar á Torfnesi. Eftirfarandi lýsing var samþykkt:

Jarðvinna og viðgerðir á drenlögnum á æfingavelli, nýtt Fifa Quality gras á æfingavöll, ásamt staðsteyptum gúmmípúða og REPDM innfyllingu, og förgun eldra grass.

Jarðvinna og drenglagnir á æfingavöll. Fifa Quality gras á aðalvöll, ásamt staðsteyptum gúmmipúða og REPDM innfyllingu.

Jafnframt er gert ráð fyrir hönnun á undirstöðum og lagnaleiðum fyrir ljósamöstur við aðalvöll.

ásættanleg niðurstaða – en vilja vökvunarkerfi

Kristján Þór Kristjánsson bókaði eftirfarandi fyrir hönd Framsóknarflokksins:

„Bætt knattspyrnuaðstaða hefur verið baráttumál Framsóknar síðustu ár og sér nú til sólar í þeim efnum. Ágætrar samstöðu hefur gætt í bæjastjórn um málið og fólk unnið að verkefninu af heilindum. Hlustað hefur verið á athugasemdir Framsóknar og þá sérstaklega um að færa hluta af fjármagni til ársins 2023 sem gerir það að verkum að gervigras verður komið á fyrir sumarið 2024. Framsókn hefur einnig beitt sér fyrir því að sett verði gervigras á báða velli þar sem núverandi gervigras er löngu orðið ónýtt og mikilvægt að setja á báða velli. Hægt verður að stjórna álagi á grasið betur og allir iðkendur ungir sem eldri æfa við sömu aðstæður. Framsókn telur að miðað við þessa tillögu og núverandi fjárhagsáætlun náist ásættanlegt aðstaða til næstu ára. Gervigras á báða velli ásamt nýjum drenlögnum. Mikilvægt er að ná inn í verkið hönnun á undirstöðum og lagnaleiðum fyrir ljósmöstur á aðalvöll svo auðveldara verði að koma því upp í nánustu framtíð. Framsókn telur jafnfram að nauðsynlegt sé að róa öllum árum að því að bætt verði inn í verkið vökvunarkerfi. Vökvunarkerfi er góð fjárfesting sem lengir endingatíma gervigras og er því spurning hvort sparnaður á því að sleppa vökvunarkerfi muni í raun skila sér til lengri tíma.
Framsókn hvetur Ísafjarðarbæ til að vera í góðum samskiptum við knattspyrnuhreyfinguna við vinnu útboðs og annað tengt verkefninu.“

DEILA