Ísafjörður: 27 börn á biðlista eftir leikskólaplássi

Leikskólinn Sólborg. Mynd: Ísafjarðarbær.

Á biðlista eftir leikskólaplássi eru í dag 24 börn fædd árið 2022, auk þeirra eru 3 börn sem fædd eru  árið 2021 sem hafa fengið boð um leikskólavist, en forráðamenn afþökkuðu og vilja bíða þar til eftir sumarlokanir leikskólanna 2023.

Þetta kemur fram í minnisblaði um stöðu leikskólamála við Skutulsfjörð vorið 2023 sem lagt var fyrir fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar í gær.

Eftir sumarlokun leikskólanna Sólborgar og Eyrarskjóls flytjast 44 fimm ára börn yfir á leikskólann Tanga. Það eru 22 börn af Eyrarskjóli og 22 börn af Sólborg. Þrjátíu og þrjú börn eru fædd árið 2022 í leikskólahverfi Sólborgar og Eyrarskjóls. 5 börn fædd árið 2022 hafa nú þegar hafið eða eru að hefja leikskólagöngu sína. Þá hafa þá forráðamenn 9 barna ekki óskað eftir leikskóladvöl fyrir börnin sín.

Gert er ráð fyrir að foreldrar barna fæddum 2022 sem eru á biðlista fái boð um að hefja leikskólagöngu sína í ágúst – desember 2023.

DEILA