Bolungavík: íbúar ná 1.000 í fyrsta sinn á öldinni

Iðnaðarhúsnæðið í Bolungavík við Mávakant.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur íbúafjöldi í Bolungavík ekki náð 1.000 íbúa markinu á þessari öld fyrr en núna í apríl 2023. Hagstofan birtir upplýsingar um íbúafjölda 1. janúar ár hvert frá 1998. Þá voru 1.098 íbúar. Samkvæmt þeim var 1001 íbúi 1. janúar 2000 og ári seinna, í upphafi 21. aldar, 1. janúar 2001 voru þeir 997.

Síðan fækkar þeim ár frá ári til 1. janúar 2011 og þá voru íbúar 888. Ári seinna voru þeir einum fleiri og árið 2013 verða þeir aftur yfir níu hundruð og voru þá 918 íbúar í sveitarfélaginu. Árið 2014 voru íbúar 950 en svo fækkaði aftur í 904 árið 2016. Leiðin lá svo hægt upp á við og um síðustu áramót , 1. janúar 2023 voru 997 með lögheimili í sveitarfélaginu. Aldrei fyrr á þessari öld hefur 1.000 íbúa múrinn verið rofinn.

Línurit yfir íbúafjölda í Bolungavík 1998- 2023. Heimild: Hagstofa Íslands.

DEILA