Þrúðheimabæturnar: Ísafjarðarbær bað um trúnað

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Karen Gísladóttir, talsmaður Þrúðheima ehf staðfestir að Ísafjarðarbær hafi óskað eftir því að trúnaður gilti um efni samkomulags um bætur til Þrúðheima ehf. Hún segir að Þrúðheimar ehf hafi ekki óskað eftir trúnaði. Karen sagðist vera fegin að þessu máli væri lokið, en það hefur tekið 3 ár. Hún sagði mikilvægt að stjórnsýslan virkaði fyrir rest og að borgararnir veiti kjörnum fulltrúum aðhald.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri sagði í skriflegu svari til Bæjarins besta að sveitarfélagið teldi sér „óheimilt að afhenda samkomulag við Þrúðheima í heild eða að hluta, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, en skv. ákvæðinu er óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Aðilar samkomulagsins undirrituðu heit um trúnað varðandi efni þess, og telur sveitarfélagið sig því ekki geta brotið það gagnvart málsaðila með því að afhenda þær upplýsingar sem óskað er eftir.“

DEILA