Þróunarsjóður innfytjendamála: þrír styrkir til Vestfjarða

Styrkþegar á athöfn í ráðuneytinu ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Paolu Cardenas, formanni innflytjendaráðs, Ásthildi Linnet, starfsmanni innflytjendaráðs, og fleiri góðum gestum. Mynd: Félagsmálaráðuneytið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti í gær hver hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls fengu 19 verkefni og rannsóknir samtals ríflega 40 milljónir króna. Þar af voru þrír styrkir sem runnu til Vestfjarða.

Menntaskólinn á Ísafirði fékk 2 m.kr. styrk. Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari segir að það sé vegna verkefnis sem ætlað er að stuðla að því að skapa meiri inngildingu í félagslífi. Í verkefninu er hugmyndin að innleiða klúbbastarf sem hefur það að markmiði að ýta undir blöndun nemenda og styðja við fjölmenningu hvort sem það eru nemendahópar með annan uppruna en íslenskan, annað móðurmál en íslensku, ólíkan menningarbakgrunn, taugagerð, kynhneigð og líkamsgerð.

Með verkefninu er vonast til að hægt verði að skapa nýjar hefðir sem ýta undir fjölmenningu og fjölbreytni og skapa menningu inngildingar sem er byggð á jafningjagrundvelli.

Háskólasetur Vestfjarða fékk tvo styrki.

Víslenska: Íslenskunámskeið fyrir vísindamenn 1,5 m.kr

Verkefnið miðar að því að auka vísindasértækan orðaforða, eða víslensku eins og umsækjandinn kemur svo skemmtilega að orði, og samskiptahæfni erlendra rannsakenda á Íslandi.

Um Vísíslensku segir dómnefnd að um sé að ræða áhugaverða nálgun sem vert sé að skoða hvort hægt verði að yfirfæra á aðra háskóla og háskólagreinar í framtíðinni.

Íslenskuvænt samfélag: við erum öll almannakennarar 2,3 m.kr.

Verkefnið lýtur að vitundarvakningu með áherslu á einfalda íslensku í samskiptum við fólk sem lærir tungumálið. Felur það í sér að kenna leiðir til að tjá sig á einfaldri og skiljanlegri íslensku svo að þeir sem eru að læra skilji betur. Hjá þeim sem læra íslensku er aftur á mót lögð áhersla á vinnutengdan orðaforða svo fólk geti sinnt vinnu sinni sem mest á íslensku.

Dómnefnd nefnir í umsögn sinni um íslenskuvænt samfélag að verkefnið sé einkar áhugavert og vel útfært og að það styðji við inngildingu í samfélagið og gæti haft áhrif á kennslu tungumálsins til framtíðar.

DEILA