SVIKULL SILFURLJÓMI í Súðavík

Dagana 1.- 23. apríl frá kl. 14-17 og eftir samkomulagi stendur yfir sýning í Félagsheimilinu í Súðavík.

Á sýningunni eru höggmyndir og myndverk eftir listakonuna Unu Björg Magnúsdóttur sem nam myndlist við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við ÉCAL í Sviss þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018.

Verk hennar hafa verið sýnd meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni, Y gallerí, KEIV í Aþenu, GES-2 í Moskvu og Nordatlantens brygge í Danmörku.

Sýningin Svikull silfurljómi birtist okkur í rými sem nú þegar er uppfullt af lögum, sögum og fingraförum. Á sýningunni eru höggmyndir og myndverk sem ávarpa ýmist rýmið beint eða velta upp spurningum um tíma og gildismat.Innsta lag sýningarinnar er ókannað svæði, fundið rými innan í rými.

Blassgrün litur handriðs mótar jaðar hins ósýnilega rýmis og gefur því skilgreinda stærð, lögun og mörk. Utan hins nýskilgreinda rýmis hanga rauð leikhústjöld. Þau marka líka rými, renna eftir brautum og aðgreina eftir hentugleika. Leikhústjöld eru rauð því myrkur gleypir rauða litinn fyrst, mýkir eldmóðinn og ástríðuna.

Fjórir pappírspésar finnast vel geymdir eftir langa dvöl á milli blaðsíðna í spakmælabók sem segir: ”Skynseminnar er að ráða, en tilfinninganna að njóta”, greinilega dýrmætir en týndir og gleymdir.

Súrefnið er yfirþyrmandi.Lög rýmisins hrannast upp, þunnar skyggnur sem erfitt er að greina eftir því sem þær verða fleiri. Tímalínur blandast saman, enginn man lengur hvort að fermingarveislur voru haldnar að vori eða snemma hausts og sumir segja að handriðið hafi alltaf verið þarna.1. apríl býr þó til pláss fyrir efa, þetta gæti allt saman verið plat – þvílíkur léttir. Ysta lag sýningarinnar er hús, samkomuhús.

Sýningin er á vegum Listasafns ASÍ og samhliða sýningunum eru haldin myndlistarnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni og gerðar stuttmyndir fyrir heimasíðu safnsins.