Strandabyggð: fiskeldi eflir Vestfirði

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Sveitarstjórn Strandabyggðar gerði á fundi sínum í gær ályktun um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. þar er lögð áhersla á þýðingu fiskeldisins fyrir Vestfirði og segir veruleg tækifæri séu til staðar til þess að auka enn verðmætasköpunina. Stoðkerfi hins opinbera hafi hins vegar ekki fylgt þróuninni og skaði það eðlilega uppbyggingu fiskeldis.

„Fiskeldi á Vestfjörðum hefur staðið undir miklum vexti, íbúafjölgun og verðmætasköpun á liðnum árum. Ljóst er að veruleg tækifæri eru til staðar á að auka enn þá verðmætasköpun með tilheyrandi íbúafjölgun og eflingu samfélags.
Á sama tíma virðist sem stoðkerfi hins opinbera hafi ekki skynjað eða mætt þessari þróun og líður fyrir óskýra uppbyggingu, skort á samvinnu og samskiptum milli stofnana. Hefur þessi ágalli á innviðum hins opinbera skaðað eðlilega uppbyggingu fiskeldis.
Skýrsla ríkisendurskoðunar staðfestir ágalla á þeirri stjórnsýslu sem snýr að greininni. Sveitarstjórn Strandabyggðar fagnar skýrslunni og málefnalegri umræðu um hana og skorar á stjórnvöld og hlutaðeigandi ráðuneyti að tryggja markvissa endurskoðun á stjórnsýslu greinarinnar, efla fagþekkingu, samvinnu og skýra starfsvið þeirra stofnana sem sinna greininni og veita auknu fjármagni til þessara innviða.
Einnig vill sveitarstjórn Strandabyggðar árétta, að tryggja þarf að tekjur sem verða til í greininni komi tilbaka til nærumhverfis greinarinnar, þar sem verðmætin verða til“.

DEILA