Aðalfundar Samfylkingarinnar á Vestfjörðum var haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, miðvikudaginn 22. mars 2023. Á fundinum voru samþykktar eftirfarandi ályktanir:
Fundurinn fordæmir harðlega vinnubrögð meirihluta Alþingis er lýtur að afgreiðslu greinargerðar fyrrverandi ríkisendurskoðanda varðandi Lindarhvol. Fundurinn krefst þess að þjóðin fái að sjá greinargerð um vinnubrögð þess fólks sem falið var að selja eignir í eigu ríkisins. Þjóðin á beinlínis heimtingu á því.
Fundurinn lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Fundurinn kallar jafnframt eftir skjótum og raunhæfum aðgerðum í efnahags- og húsnæðismálum fyrir almennt launafólk í landinu.
Fundurinn lýsir einnig yfir miklum áhyggjum af stöðu heilbrigðismála í landinu. Reglulega berast fréttir af slæmu ástandi í heilbrigðiskerfinu. Fundurinn krefst þess jafnframt að ríkisstjórnin bæti úr brýnni þörf fyrir öryggi fólks á landsbyggðinni er kemur að heilbrigðismálum.
Sjókvíaeldi er mikilvæg atvinnugrein fyrir hinar dreifðu byggðir. Fundurinn krefst þess að sveitarfélögin fái hlutdeild af þeim tekjum sem koma inn vegna hennar. Fundurinn lýsir jafnframt yfir mikilli óánægju með hversu léleg stjórnsýsla og eftirlit hefur verið með sjókvíaeldi hér á landi eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni birtist enn á ný áfellisdómur um slæleg vinnubrögð hins opinbera. Fundurinn óttast að stefni í sama farið varðandi aðrar auðlindir landsins t.d. varðandi vindorkugarða. Að reistar verði fjöldi slíkra garða án nokkurrar framtíðarsýnar og eftirlits.
Fundurinn skorar í lokin á ráðherra ríkisstjórnarinnar að stíga upp úr stólunum, skila lyklunum og boða til kosninga hið fyrsta.