OV: 200 m.kr. í olíubrennslu í fyrra

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að það hafi kostað Orkubú Vestfjarða um 200 m.kr. að þurfa að brenna olíu til þess að hita fjarvarmaveitur fyrirtækisins í fyrra. vegna skorts á raforku frá Landsvirkjun þurfti að grípa til þess ráðs að ræsa varaaflið í 54 daga og voru 2,1 milljónir lítra af olíu brenndar til þess að framleiða raforku. Það var tíföldun á olíumagni frá fyrra ári.

Að sögn Elíasar er skárra útlit á þessu ári og ekki hefur enn verið gripið til skerðingar en útlitið er ekki gott á næstu árum. Fram kom á ársfundi Landsvirkjunar fyrr í vikunni að raforkukerfi Landsvirkjunar er fullnýtt og því lítið borð fyrir báru til að mæta slæmum vatnsárum. Er því útlit fyrir að gripið verði til skerðingar á sölu forgangsorku sem kemur niður á Orkubúi Vestfjarða. Landsvirkjun fyrirhugar frekari virkjunarframkvæmdir en það mun taka tíma.

Það veldur einnig áhyggjum að sögn Elíasar að Vesturlínan sem flytur rafoku til Vestfjarða er að verða hálfrar aldar gömul og þarf stöðugt viðhald.

„Það er ekki vit í öðru en að virkja“ sagði Elias Jónatansson að lokum.

DEILA