María Júlía á förum

Varðskipið Þór er statt á Ísafirði og síðdegis í gær dró lóðsbáturinn Sturla Halldórsson Maríu Júlíu úr gömlu höfninni, þar sem það hefur legið lengi, yfir að Sundabakka að varðskipinu Þór sem mun eiga að draga það til Akureyrar þar sem það fer í slipp. Búist er við því að lagt verði af stað á morgun norður um land til Akureyrar.

Settar hafa verið 15 m.kr. úr ríkissjóði með sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar til þess að hefja lagfæringar og einkaaðilar hafa gefið vilyrði fyrir öðru eins.

Jón Sigurpálsson er fyrrverandi forstöðumaður Minjasafns Vestfjarða og hann er í forsvari fyrir Hollvinasamtök Maríu Júlíu sem hafa barist fyrir því að skipið verði gert upp og því fengið nýtt hlutverk.  Hann sagði í október síðastliðnum í viðtali við Fiskifréttir að á Akureyri verði gerð frumathugun, hreinsun og lagfæring og húsið fjarlægt. Eftir það fer María til Húsavíkur í slipp Norðursiglingar meðan frekari skrokkviðgerð fer fram. Skipatæknileg hönnun og vinna er í startholunum.

María Júlía dregin úr gömlu höfninni í gær. Mynd: Lilja Rafney Magnúsdóttir.