Landssamband smábátaeigenda á móti kvótasetningu á grásleppu

Allt frá árinu 2018 þegar hugmyndir um að kvótasetja grásleppu voru fyrst ræddar hefur Landssamband smábátaeigenda verið andvígt þeim hugmyndum og svo er enn.

Í umsögn um frumvarpið segir: “ LS harmar framkomin frumvarpsdrög og hvetur matvælaráðherra að láta hér staðar numið, setja frumvarpið á ís og efna til viðræðna við LS um framtíð grásleppuveiða. Þar verði ekki eingöngu fjallað um stjórn veiðanna, heldur rannsóknir og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, markaðsmál, umgengni um auðlindina, meðafla við veiðar og fleira. Að viðræðunum komi jafnframt fulltrúar hinna dreifðu byggða þar sem grásleppan hefur og er enn mikið búsílag, kaupendur grásleppu og grásleppuhrogna og framleiðendur grásleppukavíars.“

Þá bendir Landssambandið á að það hafi lagt til breytingar á stjórnun veiða á grásleppu sem allar myndu verða til hagræðingar fyrir grásleppuveiðimenn, t.d. að veiðitími liggi fyrir áður en vertíð er hafin.
• það teljist veiðidagur þegar net eru í sjó. Með tímabundnu hléi á veiðum mætti forðast meðafla og netatjón vegna óveðurs. LS hefur margsinnis lagt þetta til og Fiskistofa telur ekki vandkvæðum bundið að koma á slíku fyrirkomulagi.
• að heimilt verði að sameina 2 grásleppuleyfi á bát
• að heimilt verði að stunda grásleppuveiðar frá og með 20. mars
• grásleppuleyfi hvers báts gildi að lágmarki í 25 veiðidaga. Heimilt verði að fjölga/fækka dögum eftir því hversu margir bátar fara til veiða. Við þá ákvörðun verði haft samráð við Hafró og LS.
• VS-aflaheimild við grásleppuveiðar verði 25%.
• að öllum sem stunda grásleppuveiðar verði tryggðir jafn margir veiðidagar

Varað við samþjöppun aflaheimilda

Í lok umsagnar Landssambandsins er varað við samþjöppun aflaheimilda og sagt að hingað til hafi kvótasetning stuðlað að sameiningu útgerða og fækkun aðila sem stunda viðkomandi veiðar. Á því verður engin undantekning með samþykkt þessa frumvarps.

Samþjöppun mun verða á þá leið að þeir sem hafa aðgang að fjármagni munu kaupa upp veiðirétt hinna. Þannig mun kvótasetning fækka útgerðaraðilum og bátum sem stunda veiðarnar.
Í frumvarpinu er ákvæði um að samanlögð aflahlutdeild í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila eða í eigu tengdra aðila megi ekki vera hærri en 2%. Eins og dæmin sanna hafa slík ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða reynst haldlítil.
Vakin er sérstök athygli á að í dag eru einu tækifærin fyrir sjómenn til að hefja sjálfstæða útgerð og vinna sig inn í atvinnugreinina bundin við grásleppu- og strandveiðar.

DEILA