Lagareldi: 200 milljarða kr. aukning á 10 árum

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra flytur ávarp á ráðstefnu fiskeldisfyrirtækja.

Líklegasta sviðsmyndin í skýrslu Boston Consulting Group, sem kynnt var í gær, er að verðmæti lagareldis aukist úr 44 milljörðum króna árið 2021 í 242 milljarða króna árið 2032.

Skýrslan nefnist staða og framtíð lagareldis á Íslandi og er unnin fyrir Matvælaráðuneytið. Lagareldi er samheiti yfir allt eldi , sjókvíaeldi, landeldi, úthafseldi og þörungaeldi. Í ávarpi Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra kom fram að skýrslan verður notuð til þess að semja stefnu fyrir atvinnugreinina. Stefnt er að því að drög verði lögð fram í september í haust og að frumvarp til laga verði lagt fram á Alþingi vorið 2024.

Í skýrslunni voru dregnar upp þrjár sviðsmyndir um þróunina næsta áratuginn , óbreytt ástand, grunnsviðsmynd og framsækin. Líklegust er grunnsviðsmynd og fylgir henni mikil verðmætasköpun, sem nemur 6% af landsframleiðslu, störfum fjölgi um 3% og skatttekjur aukist um 3%.

242 miljarðar króna útflutningsverðmæti

Gangi grunnsviðsmyndin eftir myndu árleg framleiðsluverðmæti aukast um 200 milljarða króna og verða 242 milljarðar króna. Til samanburðar voru útflutningsverðmæti þorskstofnsins 141 milljarðar króna í fyrra. Eldið yrði því 1,5 sinnum verðmæti þorskstofnsins. Sjókvíaeldið verður langstærst með 132 milljarða kr skv. þessu og landeldið verður komið vel af stað eftir 10 ár og gefur 68 milljarða króna. Umgang sjókvíaeldisins mun þrefaldast frá 2021.

Umrædd sviðsmynd Boston Consulting Group gerir ráð fyrir að störfum muni fjölda um nærri 5000 á tímabilinu og að skattar og gjöld aukist úr 8 milljörðum króna upp í 47 milljarða króna.

245 þúsund tonna framleiðsla

Fiskeldið mun árið 2032 framleiða 242 þúsund tonn. Sjókvíaeldið verður sem fyrr langöflugast með 146 þúsund tonna ársframleiðslu. Landeldið er talið framleiða 75 þúsund tonn og 24 þúsund tonn er áætluð í úthafseldi. Þörungaeldi er talið verða komið vel af stað og stórþörungaeldi gefi af sér 177 þúsund tonn.

Almennt jákvæð áhrif af lagareldi

Björn Björnsson hjá Boston Consulting Group kynnir skýrsluna.

Áhrifin af lagareldinu á umhverfi, efnahag og samfélag eru talin verða almennt jákvæð eins og sést á ofangreindri mynd. Af 11 þáttum sem eru teknir til athugunar eru 9 jákvæðir eða frekar jákvæðir, það eru grænlituðu reitirnir á myndinni. Aðeins tveir eru neikvæðir. Áhrif á líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi er merktur neikvæður og árekstrar milli fjárhagslegra hagsmuna og hugmyndafræði er frekar neikvæður. Alþjóðleg ímynd landsins er metin jákvæð svo og þrír þættir sem varða umhverfið, sjálfbær orkunotkun, losun gróðurhúsalofttegunda og hringrásarhagkerfið.

Í skýrslunni er minnt á að „heimurinn stendur frammi fyrir þeirri áskorun að brauðfæða yfir átta milljarða jarðarbúa á
sama tíma og loftslagsbreytingar eiga sér stað. Sjálfbær matvælaframleiðsla er lausnin og þar hefur lagareldi hlutfallslega sterka stöðu. Til samanburðar við aðrar framleiðsluaðferðir prótíns til manneldis, er losun gróðurhúsalofttegunda og fóðurþörf hagstæð í fiskeldi.“

DEILA