Tilkynnt var í kauphöllinni í Osló í morgun að Måsoval og Ísfélag Vestmannaeyja hefði gert samkomulag um að Ísfélagið kaupi hlutafé í væntanlegri hlutafjáraukningu Ice Fish Farm upp á 45 milljónir evra sem tilkynnt var um 27. febrúar síðastliðinn. Måsoval á 56,12% í austfirska laxeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm og munu hlutabréf fyrirtækisins verða færð í nýtt eignarhaldsfélag Austur Holding AS. það mun svo taka þátt í hlutafjáraukningunni að því marki sem þarf til að halda óbreyttum eignarhlut og mun Ísfélag Vestmannaeyja kaupa sig inn í Austur Holding AS og eignast 29,3% hlutafjár í því. Viðskiptin miðast við verð á hlutabréfum í Ice Fish Farm verði 43 norskar krónur á hlut.
Vefurinn Intra Fish telur fjárfestingu Ísfélag Vestmannaeyja vera 60 milljónir dollara virði eða um 8,4 milljarða íslenskra króna.
Um mánaðamótin var tilkynnt um mikla fjárhagslega endurskipulagningu Ice Fish Farm með 156 milljóna evra endurfjármögnun lána og 45 milljóna evra í nýtt hlutafé auk þess sem núverandi hluthafar breyta lánum í hlutafé fyrir 25 milljónir evra. Samtals er þetta nærri 34 milljarðar íslenskra króna.
Tilkynnt var fyrir jól um væntanlegan samruna Ísfélag Vestmannaeyja hf og Ramma hf með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Mun sameinað félag eiga um 8% alls kvóta á Íslandi og gera út 11 skip. Stærstu hluthafar sameinaðs félags verða: ÍV fjárfestingarfélag ehf., Marteinn Haraldsson ehf., Gunnar Sigvaldason, Svavar Berg Magnússon og munu fara með samtals 83%.