Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir Torfnesvöll á fundi sínum í gær og segir í bókun þess að það leggi áherslu á að sett verði nýtt gervigras á aðalvöllinn og æfingavöllinn.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja eftirfarandi sviðsmynd fyrir framkvæmdirnar byggt á kostnaðarmati úr minnisblaði sviðsstjóra og að bæjarstjóra verði falið að bjóða verkið út:
„Jarðvinna og viðgerðir á drenlögnum á æfingavelli, nýtt Fifa Quality gras á æfingavöll, ásamt staðsteyptum gúmmípúða og REPDM innfyllingu, og förgun eldra grass.
Jarðvinna og drenglagnir á æfingavöll. Fifa Quality gras á aðalvöll, ásamt staðsteyptum gúmmípúða og REPDM innfyllingu.
Jafnframt er gert ráð fyrir hönnun á undirstöðum og lagnaleiðum fyrir ljósamöstur við aðalvöll.“
vökvunarkerfi ekki fjármagnað
Ekki verður séð að vökvunarkerfi aðalvallar rúmist innan fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar, en gert er ráð fyrir kr. 200.000.000 vegna uppbyggingarinnar í heild sinni.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að undirbúa útboðsgögn miðað við ofangreint, þar sem heimilt verður að hafa vökvunarkerfi í frávikstilboði, finnist lausn á fjármögnun þess.
Málið gengur til bæjarstjórnar. Næsti fundur verður seinna í dag.