Ísafjarðarbær: þrengdar reglur um styrki vegna fasteignagjalda

Í síðustu viku fól bæjarráð bæjarstjóra að uppfæra reglur um veitingu styrkja til félagasamtaka vegna fasteignagjalda og leggja fyrir bæjarráð. Á mánudaginn var lagt fram minnisblað  Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs um málið. Þar eru lagðar til breytingar á gildandi reglum.

Þær helstu eru að tekið er fyrir að veita bæði styrki til greiðslu fasteignaskatts skv. reglum þessum og jafnframt samningsbundna rekstrarstyrki hjá Ísafjarðarbæ. Í öðru lagi er ákvæði um styrkveitingu holræsagjalda tekið út í nýjum reglum, „enda samræmist sú styrkveiting ekki lagaheimildinni, þar sem eingöngu er kveðið á um fasteignaskatt“ segir í minnisblaðinu.

Þá er hámark styrkfjárhæðar óbreytt eða 130 þúsund kr. „Með hliðsjón af veitingu styrkja síðustu ár má sjá að sú fjárhæð er fullnægjandi fyrir langflest félögin í sveitarfélaginu, þannig að fasteignaskattur sé að fullu styrkhæfur. Þau félög sem greiða hærri fasteignaskatt en sem þessu nemur eru rekin með miklum hagnaði, skv. ársreikningi, að teknu tilliti til þess að virk starfsemi sé í félaginu og félagsgjöld innheimt.“

Loks eru gerðar breytingar á ákvæðum um umsóknargögn, auglýsingu styrkja og málmeðferð.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja nýjar reglur Ísafjarðarbæjar um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.

DEILA