Ísafjarðarbær: fagnar tillögu um Álftafjarðargöng

Ný göng myndu leysa elstu jarðgöng landsins af hólmi, en þau eru í gegnum Arnarneshamarinn og voru gerð 1949. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar á Alþingi um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Í tillögunni er innviðaráðherra falið að skapa svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á
milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020– 2034. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2023.

Í bókun segir bæjarráðið að það fagni þingsályktunartillögunni og telur brýnt að samgöngur innan atvinnusvæðis á norðanverðum Vestfjörðum séu tryggar.

Tillaga um sama efni hefur sex sinnum áður verið lögð fram án þess að ná fram að ganga. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að í fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 er ekki að finna heildstæða áætlun um jarðgangagerð á Íslandi og því ekki gert ráð fyrir Súðavíkurgöngum. Önnur brýn jarðgangaverkefni bíða úrvinnslu bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.

Alþingi samþykkti 12. október 2016 þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 þess efnis að veita skyldi fjármagn til að hefja undirbúning og rannsóknir á Súðavíkurgöngum árin 2017 og 2018 en ekkert hefur gerst enn sem komið er.

Í samantekt Vegagerðarinnar frá 2022 eru tveir valkostir nefndir um jarðgöng milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Annars vegar 6,9 km göng sem kosti 17,5 milljarða króna og hins vegar styttri göng 2,3 km sem kosti 5,7 milljarða króna.

Fram kemur í rökstuðningi þingsályktunartillögurnnar fyrir jarðgöngum að „gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni.“ og ennfremur að „norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Samkvæmt vinnusóknarkönnun sem Byggðastofnun lét gera árið 2017 sækja tæp 30% vinnandi fólks í Súðavík vinnu til Ísafjarðar og þetta hlutfall fer stöðugt vaxandi. Þónokkur fyrirtæki eru með starfsemi í Súðavík og á öðrum þéttbýliskjörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðisþjónustu, til Ísafjarðar.“

Í umsögn Vegagerðarinnar um þingmálið frá 2021 segir ljóst að „gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar verður ekki að veruleika á tímabiii gildandi sam gönguáætiunar 2020-2034. í greinargerð með þingsályktun með sam gönguáætlun 2 02 0-2 03 4 kemur jafnframt fram að stefnt er að því að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi sem hægt verði að leggja til grundvallar varðandi frekari forgangsröðun jarðgangakosta til lengri tíma. Vegagerðin hefur hafið þá vinnu og eru jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar einn af þeim jarðgangakostum sem til skoðunar eru.“

DEILA