Íbúum fækkar lítilsháttar á Vestfjörðum

Drangsnes. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum hefur fækkað um 5 frá 1. desember 2022 til 1. mars 2023 samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands sem birtar voru í gær. Mestu munar um að það fækkaði um 26 íbúa í Ísafjarðarbæ. Þá fækkaði um 2 í Tálknafjarðarhreppi. Hins vegar fjölgaði í sjö sveitarfélögum. Mest var fjölgunin í Kaldrananeshreppi, en þarbættust 7 íbúar við. Í Bolungavík hefur fjölgað um 6 íbúa frá 1. desember sl. og eru 995 búsettir í sveitarfélaginu.

Hlutfallsleg fjölgun á landinu er mest í Kaldrananeshreppi eða 6,2% og næst mest í Skorradalshreppi eða 5,2% miðað við tölur 1. desember 2022 til 1. mars 2023.

Þegar horft er til heildarfjölda breytinga á íbúafjölda utan höfuðborgarsvæðisins þá hefur íbúum í Reykjanesbæ fjölgað mest frá 1. desember 2022 eða um 400 íbúa. Næst mest fjölgaði íbúum í Sveitarfélaginu Árborg eða um 109 íbúa og íbúum í Borgarbyggð fjölgaði um 103 á sama tímabili. 

Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 1070 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2022 til 1. mars 2023 og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 137 íbúa.  Íbúum í Hafnarfjarðarkaupstað hefur fjölgað um 170 íbúa og í Garðabæ fjölgaði um 123 íbúa.  Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 55 íbúa.

DEILA