Hafrannsóknarstofnun: aðeins 8 strokfiskar úr innlendu laxeldi hafa veiðst á 6 ára tímabili

Fram kemur í grein eftir Ragnar Jóhannsson rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun og birtist í Bændablaðinu á fimmtudaginn að á síðastliðnum sex árum hafa aðeins 8 strokulaxar úr innlendu eldi veiðst í laxveiðiá. Auk þess hafa tveir strokulaxar veiðst sem eru frá erlendu laxeldi. Samtals eru það 10 strokulaxar sem hafa veiðist á sex ára tímabili. Strokulaxarnir 10 eru aðeins 0,09% af veiddum löxum í þessum sömu veiðiám.

Þar að auki hafa laxar gengið í smáar ár nálægt strokstað og þá mest í frárennsli Mjólkárvirkjunar (29 fiskar) og 9 fiskar
í aðrar ár í nágrenni strokstaðar eins og Fífustaðadalsá og fleiri smáar ár. Frárennsli Mjólkárvirkjunar fóstrar ekki nytjastofn og hinar árnar ekki heldur. Báðar þessar ár eru í Arnarfirði.

Ágengni langt innan við þau mörk sem hafa áhrif

Í greininni útskýrir Ragnar áhættumat erfðablöndunar, sem Hafrannsóknarstofnun bjó til og var þróað til þess eins að spá fyrir um áhættuna á erfðablöndun norskættaðs eldislax við villta íslenska laxastofna í ám landsins. Áhættumatið reiknar út áætlaðan fjölda göngufiska úr sjókvíaeldi upp í veiðiár samkvæmt gefnum forsendum. Matið reiknar út ágengni (e. intrusion) í einstökum ám út frá þekktum upplýsingum um stofnstærð í hverri á. Rauntölur frá Noregi hafa
sýnt að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni heldur en villtur fiskur og því má reikna með því að erfðablöndunin verði einnig margfalt minni en ágengnin. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera að minnsta kosti 4% á hverju ári áratugum saman til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar. „Í áhættumati frá 2020 var áætluð ágengni um og innan við 1% í 89 af þeim 92 veiðiám sem eru í matinu og þar af var engin ágengni áætluð í 43 ám.“

Af þessu 92 veiðiám í áhættumatinu eru 12 á Vestfjörðum. Það er : Fjarðarhornsá, Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi, Ísafjarðará, Langadalsá, Hvannadalsá, Selá í Steingrímsfirði, Staðará í Steingrímsfirði, Víðidalsá í Steingrímsfirði, Hrófá, Krossá í Bitru, Víkurá og Prestbakka.

Raunverulegar stroktölur eru að sjálfsögðu breytilegar á milli ára en meðaltal síðustu 10 ára í Noregi gefur töluna 0,8 fiskar á hvert tonn framleitt. Meðaltal síðustu 6 ára hérlendis gefur töluna 0,5 fiskar á hvert tonn framleitt.

Tafla úr grein Ragnars Jóhannssonar.

Forsendur áhættumatsins hafa staðist

Ragnar Jóhannsson fjallar einnig um þau strok sem kunnugt er um og segir að veiði á strokfiski hafi sýnt að forsendur áhættumatslíkansins hafi gengur eftir.

Annars vegar er um að ræða strok 11 þúsund laxa úr tveimur kvíum Arnarlax í febrúar 2018 (síðbúið strok, stórir
fiskar) sem hafi verið í raun ágætt álagspróf á fyrstu útgáfu áhættumatsins. „Raunin varð sú að mun færri fiskar skiluðu sér í veiðiár en búist var við og endurkomuhlutfallið var því lækkað úr 3,3% í 1,1% við endurmat árið 2020.“

Hins vegar varð strok úr sjókví við Haganes í Arnarfirði 2021 og „gat Arnarlax ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa. Útreikningar okkar gáfu svipaða niðurstöðu varðandi strokfjölda. Hér var um sjógönguseiði að ræða (snemmstrok).“

Og niðurstaðan er að mati Ragnars: „Samkvæmt gögnum frá Arnarlaxi var meðalþyngd þeirra um 900 grömm við strok. Í fyrra veiddust 25 fiskar úr þessu stroki í ám í Arnarfirði, meginþorrinn í frárennsli Mjólkárvirkjunar. Það stemmir nokkuð vel við þá 40 fiska sem vænta mátti eftir 1 vetur í sjó. Einnig var dreifing þeirra lítil á frekar takmörkuðu svæði eins og matið gerði ráð fyrir.“

Nytjastofnar metnir en ekki aðrir

Í áhættumatið hafa verið teknar að sögn Ragnars velflestar ár sem eru með skráða veiði óháð því hve mikil veiðin hefur verið og því að veiðibækur hafi vantað einhver ár.

Í lögum um fiskeldi 71/2008 eru ákvæði um áhættumat erfðablöndunar. Þar segir um áhættumatið í 16. grein. „Markmið þessa er að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum“.

Þá segir Ragnar Jóhannsson í greininni um tilgang áhættumatsins: „Nytjastofn er stofn sem getur gefið af sér veiði með sjálfbærum veiðum. Vatnsfall þar sem mjög fáir fiskar finnast getur því ekki talist fóstra nytjastofn. Því eru ekki teknir í áhættumatið ár þar sem finnast af og til örfáir laxar. Þær fóstra ekki eiginlega laxastofna og geta ekki flokkast sem nytjastofnar.“

DEILA