Boðuð höft á grásleppuveiðum brjóta í bága við stjórnarskrá Íslands

Ekki stendur steinn yfir steini þegar farið er gagnrýnið yfir veiðiráðgjöf Hafró í grásleppu og því er galið að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hyggist nota „ráðgjöfina“ til þess að ákveða sóknar- eða aflatakmarkanir og mun ég hér tíunda helstu galla. 

  1. Aðferðafræðilega, mælingar við botn eru notaðar til meta stofnstærð fisks sem heldur sig að mestu í yfirborðinu. Það beinlínis súrealískt að ráðgjöfin styðst við mælingar í stofnmati botnfiska (togararall) til þess að meta stofnsveiflur uppsjávarfisksins (grásleppu). 

 Annars vegar er stuðst við mælingu yfirstandandi árs sem látin er vega 70% og hins vegar eru niðurstöður úr togararalli liðins árs látnar gilda 30%, í stofnmatinu, vegna þess að mælingarnar eru óvissu háðar og ónákvæmar. 

Það er eins og hver önnur óborganleg vitleysa að ætla tveimur jafn ónákvæmum og óvissum mælingum að bæta hvor aðra upp og reikna án nokkurs líffræðilegs rökstuðnings út, óbreytanlegan kvóta í grásleppu upp á tonn.

  1. Líffræðilega, þ.e. líffræðilegar forsendur „ráðgjafarinnar“ eru ekki til staðar. Það eru engin gögn, eða þá mjög takmörkuð, þekkt um aldur hrygningarfisks hrognkelsa á Íslandi og því er ekki nokkur leið að meta hvort stór hrygningarstofn gefi meiri eða minni veiði seinna. Ef menn gefa sér að stofnmatið gefi rétt mat á raunverulegri stofnstærð (sem er af og frá, sbr. það sem vertíðin 2020 gaf til kynna) vantar allan líffræðilegan rökstuðning fyrir umræddu nýtingarhlutfalli sem Hafró byggir á. Hvernig má það vera að stofnvísitala grásleppu (hrygnunnar) og rauðmagans (hængsins) sveiflast ekki með sama hætti?

     
  2. Ráðgjöfin gengur ekki upp á forsendum ráðgjafarinnar sjálfrar, en svo virðist sem sá kvóti sem skilinn hefur verið eftir á síðustu árum og var sannarlega ekki veiddur komi ekki til viðbótar við útgefna ráðgjöf í ár.

Forsendur ráðlagðs grásleppuafla eru svo veikar og órökstuddar að takmarkanir á grundvelli ráðgjafarinnar brjóta beinlínis í bága við ákvæði um atvinnufrelsi í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins.  

Það er full ástæða fyrir LS að fara fram á að nefnd um opinberar eftirlitsreglur taki þessi órökstuddu höft á grásleppuveiðum til skoðunar í samræmi við 6. gr. laganna, nr. 27/1999  en þau standast engan veginn 2. gr. sömu laga um að aðeins megi takmarka atvinnufrelsi ef almannahagsmunir krefjist þess. 

Sigurjón Þórðarson

varaþingmaður Flokks fólksins

DEILA