ASÍ hafnar skattafrádrætti vegna heimilishjálpar

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) er því andvígt að lögum verði breytt á þann veg að veitt verði heimild til skattalegs frádráttar vegna heimilishjálpar.

Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum  um tekjuskatt.

Samkvæmt frumvarpinu verður veitt verði heimild til skattalegs frádráttar vegna heimilishjálpar sem felur í sér að draga má fjárhæð að hámarki 1.800.000 kr. á ári frá tekjuskattsstofni einstaklings, þ.e. sem nemur að meðaltali 150.000 kr. á mánuði. Í greinargerð með frumvarpi er vísað til sambærilegs skattalegs frádráttar sem tekinn var upp í Svíþjóð árið 2007. Nú er heimilt að draga frá 75.000 sænskar krónur frá tekjuskattstofni vegna þjónustu sem keypt er á heimilum (RUT-avdrag), þ.e. rúmlega milljón íslenskar krónur.

Í umsögn Alþýðusambandsins segir m.a. að verði frumvarpið að lögum mun það veita tekjuhæstu hópum samfélagsins skattaafslátt umfram aðra ásamt því að auka flækjustig skattkerfisins. Ólíklegt sé að það vinni gegn svartri atvinnustarfsemi. Þessar skattbreytingar hafi verið umdeildar í Svíþjóð og hafi kostnaður vegna frádráttarins meira en tvöfaldast frá 2013. Um helmingur af skattaafsláttarins hafi runnið til tekjuhæstu tíundarinnar.

Þá er umsögninni varað við því að tekjuskattskerfið verði flækt i þessu skyni. Fyrir tíma staðgreiðslukerfisins hafi fjöldinn allur af undanþágum og frádráttarliðum tíðkast. Við innleiðingu staðgreiðslukerfisins hafi þeir afslættir verði lagðir. Afsláttur vegna heimilishjálpar fæli því í sér afturhvarf til eldra kerfis.

Loks segir að í Svíþjóð hafi kerfið ekki skilað þeim tilætlaða árangri að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og fjölga störfum fyrir jaðarsetta hópa t.d. flóttafólk.

DEILA