Arnarlax: aukin sókn á Ameríkumarkað

Björn Hembre forstjóri Arnarlax.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir að á yfirstandandi ári miðist fjárfesting fyrirtækisins að því að mæta aukinni framleiðslu sjókvíaeldisins. Fjárfest verði í brunnbátum, kvíum og flutningabátum. Þá verði seiðaeldisstöðvar félagsins í Grímsnesi og í Ölfusi stækkaðar og afköst þeirra aukin.

Á árinu er þess vænst að framleiðslan verði um 16.000 tonn og aukist verulega á árinu 2024. Nýtt kvíastæði í Patreksfirði gerir fyrirtækinu kleift að auka framleiðsluna og nýta betur framleiðsluheimildir þess.

Björn Hembre kvaðst sjá fyrir sér að á árinu myndi staða Arnarlax á Ameríkumarkað styrkjast verulega með beinum siglingum Eimskips til Bandaríkjanna með afurðir.

Að lokum sagði Björn að starfsfólk Arnarlax hefði á síðasta ári unnið frábært starf sem hefði skilað mjög góðri afkomu, en tekjur þess jukust um 74% eða um 10 milljarða króna. Framlegðin, þ.e. tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði varð í fyrra um 5,5 milljarðar ísk króna og fimmfaldaðist frá fyrra ári.

DEILA