Hjólabók um Vestfjarðakjálkann

Hjólabókahöfundurinn Ómar Smári Kristinsson hefur skrifað nýja Hjólabók um Vestfjarðakjálkann.

Hún kom út fyrir síðustu jól. Hún hefur verið að seljast síðan þá. Hjólabækurnar eru nefnilega ólíkar venjulegum jólabókum að því leyti að líftími þeirra er langur. Þær eru að mjatlast út árið um kring. Að lokum kemur að því að þær úreldast (landið og þjóðin taka sífelldum breytingum) eða seljast upp.

Eldri Vestfjarðabókin er uppseld nema hvað enn eru til nokkur eintök af enskri útgáfu hennar. Hún var eina bókin í seríunni sem þýdd var á erlent tungumál.

Ómar Smári skrifaði semsagt nýja Vestfjarðabók og eru langflestar leiðirnar í henni nýjar, þ.e.a.s. þeim hefur ekki verið lýst í fyrri bók. Efnistök Hjólabókanna miðast við hringleiðir sem hægt er að ljúka á einum degi. Það var ekki auðvelt að finna margar nýjar slíkar á Vestfjarðakjálkanum. Fyrir vikið eru leiðirnar langar og erfiðar; mikið af línuvegum og öðrum torfærum. Til að allir fái eitthvað við sitt hæfi ákvað Ómar Smári að gera undantekningu frá reglunni. Stór hluti nýju Vestfjarðabókarinnar inniheldur lýsingar á stuttum hringleiðum og leiðum sem liggja fram og til baka. Þar er af nógu að taka.

Ómar Smári fullyrðir að þessi bók sé sú besta í seríunni, bæði fyrr og síðar. Hann segist hálfpartinn kvíða fyrir útgáfu næstu Hjólabóka vegna þess að þær verði lakari að gæðum; þær geti ekki toppað þessa.

Ástæður þess hve vel tókst til með nýju Vestfjarðabókina eru fyrst og fremst þær að Ómar Smári býr á svæðinu og þekkir þar betur til en annars staðar á landinu. Auk þess á hann mikið af ljósmyndum frá ýmsum árstímum og með fólki.

Suma landshluta þekkir Ómar Smári ekki nema í sumarskrúðanum og bækurnar verða þar af leiðandi helst til einsleitar. Loks má geta þess að Ómar Smári er afar hrifinn af Vestfjarðakjálkanum. Sú hrifning hans hefur væntanlega skilað sér í bókinni. Eðlilega nýtur hann þess best að fjalla um þær slóðir sem hann hefur mestar mætur á.

Eiginkona Ómar Smára, Nína Ivanova, sá um umbrotið. Hún þekkir vel inn á sérviskur höfundar og tókst með stakri lagni að raða miklu efni á 112 blaðsíður og ganga frá til prentunar. Ísafoldarprentsmiðja sló lokatóninn með því að skila fyrsta flokks prentverki.