Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hélt landsþing sitt um helgina. Samþykktar voru ályktanir um helstu mál. Um fiskeldi var ályktað eftirfarandi:
„Fiskeldi er lyftistöng fyrir fjölbreytt atvinnulíf byggða og því er mikilvægt að byggja áfram upp sem sterka atvinnugrein á þeim svæðum sem nú þegar hafa fengið tilskilin leyfi. Huga verður að umhverfisáhrifum, læra af reynslu annarra þjóða og halda áfram að móta skýrt og sterkt regluverk í kringum starfsemina með sjálfbærni í huga. Greiða skal auðlindagjald vegna fiskeldis og skal það renna að stórum hluta til nærsamfélaga.“
VG: þarf umbætur
Vinstri hreyfingin grænt framboð hélt einnig þing um helgina. Um var að ræða flokksþing, sem er æðsta samkoma milli landsfunda. Þar voru einnig gerðar margar ályktanir þar með talið um fiskeldi.
„Fundurinn brýnir stjórnvöld til að vinna gagngerar og heildstæðar umbætur í fiskeldismálum. Fundurinn lýsir ánægju með ákvörðun matvælaráðherra að óska eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar og nýta hana til þess að kafa ofan í stöðu málaflokksins og búa til grundvöll til að ráðast í úrbætur og byggja þannig upp atvinnugrein sem rekin er á grundvelli sjálfbærni – í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag.“