Vesturbyggð: samþykkir samstarf um velferðarþjónustu á Vestfjörðum

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í síðustu viku að fara í samstarf um sérhæfða velferðarþjónustu á Vestfjörðum þar sem Ísafjarðarbær mun taka að sér að vera leiðandi sveitarfélag. Með sérhæfðri velferðarþjónustu er átt við framkvæmd og rekstur barnaverndarþjónustu sbr. barnaverndarlög nr. 80/2002 og þjónustu við fatlað fólk skv. lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Bæjarstjórn fól bæjarstjóra að útfæra nánar fyrirliggjandi drög að samningi um samstarf sveitarfélaganna í samráði við sveitarstjóra annarra sveitarfélaga sem einnig hafa samþykkt umrætt samstarf. Honum var falið að undirrita samninginn að lokinni þeirri vinnu og leggja fyrir bæjarstjórn til staðfestingar.

Í bókun bæjarstjórnar segir:

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur vel í tillögu um að samningur verði gerður við Ísafjarðarbæ um að vera leiðandi sveitarfélag vegna barnaverndarþjónustu og þjónustu við fatlað fólk. Bæjarstjórn telur að breytingin á starfseminni geti bætt þjónustu við íbúa og nýtt mannauð og fagþekkingu starfsfólks sveitarfélaganna betur. Bæjarstjórn leggur áherslu á að um mikilvæga þjónustu er að ræða í starfi sveitarfélaga og varðar íbúa sveitarfélagsins beint. Leiðandi sveitarfélag verður að geta þjónað íbúum vel á hagkvæman og skilvirkan hátt innan ramma laganna. Bæjarstjórn leggur áherslu á að verklag, verkferlar og umsýsla í tengslum við málaflokkana sé eins skýr og auðið er við upphaf þjónustunnar, sem og aðkoma aðildar sveitarfélaganna. Enn fremur telur bæjarstjórn mikilvægt að samningurinn milli sveitarfélaganna verði endurskoðaður innan árs frá gildistöku hans og að aðkoma allra aðildar sveitarfélaga verði tryggð að þeirri vinnu.“

DEILA