Vesturbyggð: eftirlit með sjókvíaeldi verði í nærumhverfinu

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Bæjarráð Vesturbyggðar segir í bókun að niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu í fiskeldi komi ekki á óvart þar sem Vesturbyggð hefur ítrekað bent á skort á eftirliti og rannsóknum með fiskeldi þau ár sem fiskeldi hefur verið starfrækt.

Vesturbyggð ítrekar kröfu sína um að opinberar eftirlitsstofnanir sinni hlutverki sínu af alúð í þágu umhverfis og lífríkis sjávar með því að þeir starfsmenn sem sinni eftirliti með fiskeldi hafi fasta starfsstöð í nærumhverfi greinarinnar. Þannig verði stuðlað að aukinni vernd og eftirliti með sjálfbærri nýtingu auðlinda og náttúrugæða á svæðinu.
Á sunnanverðum Vestfjörðum er enginn starfsmaður með fasta starfsstöð sem sinnir eftirliti með fiskeldi en þar fer fram eitt umfangsmesta sjókvíaeldi á landinu segir í bókuninni.

„Skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir ágalla á þeirri stjórnsýslu sem snýr að greininni. Vesturbyggð fagnar skýrslunni og skorar á stjórnvöld í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög að tryggja markvissa endurskoðun á stjórnsýslu greinarinnar.“

DEILA