Umferðaróhöpp og ökumenn aka of hratt

Rétt fyrir miðnættið þann 20. febrúar valt bifreið út af veginum í Hestfirði, við Geitahvammsá.

Auk ökumanns voru þrír farþegar í bifreiðinni. Enginn slasaðist, enda öll með öryggisbelti og viðeigandi verndarbúnað.

Annað umferðaróhapp varð í Breiðadal um miðjan dag þann 22. febrúar þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún utan vegarins. Hvorki ökumaður né farþegi meiddust, enda báðir í öryggisbelti.

Þá varð árekstur við hringtorgið á Ísafirði þann 24. febrúar þegar ekið var aftan á bifreið sem var stöðvuð meðan ökumaður beið eftir að komast inn í hringtorgið.

Mikilvægt er að haga akstri í samræmi við aðstæður og má minna á mikilvægi notkunar öryggisbelta segir í frétt lögreglu.

Einn ökumaður var stöðvaður, grunaður um að vera undir áhrifum áfengis við akstur á Barðaströnd rétt um miðnættið þann 25. febrúar og annar ökumaður var kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum.

6 ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru stöðvaðir í Reykhólasveit, Þröskuldum en einnig í Skutulsfirði.

DEILA