Strandsvæðaskipulag: niðurstaða ráðherra liggi fyrir eigi síðar en 2. mars

Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Svæðisráð um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði hefur sent tillögu sína að strandsvæðisskipulagi, sem samþykkt var 6. desember sl, ásamt athugasemdum og umsögn. Þá hefur innviðaráðherra tólf vikur til að yfirfara tillöguna og taka afstöðu til hennar til staðfestingar, frestunar eða höfnunar. Í svari Innviðaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að vinna við yfirferð tillagna um strandsvæðisskipulag Vestfjarða annars vegar og Austfjarða hins vegar standi nú yfir í ráðuneytinu.

Tillagan bárust ráðherra 8. desember sl. og því skal niðurstaða ráðherra liggja fyrir innan tólf vikna sem er 2. mars nk. segir í svarinu.

Ráðuneytið var einnig inntur eftir framkvæmd á áhættumati siglinga sem ákveðið var að ráðast í og varð til þess að frestað var að gefa út leyfi til eldis í Ísafjarðardjúpi sem voru tilbúin fyrir jól.

Í svarinu segir að Vegagerðin, Samgöngustofa og Landhelgisgæslan munu annast áhættumat siglinga. Vinnu við matsferil vegna áhættumatsins skal ljúka fyrir 24. febrúar nk.

Við undirbúning tillagna að strandsvæðaskipulagi fyrir Austfirði var unnið áhættumat siglinga vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði. „Við þá vinnu hafi verið stuðst við viðmið Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Eftir fundi ráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu væru þau viðmið talin ágætur grunnur fyrir frekari vinnu af þessu tagi en að sníða þurfi þau betur að íslenskum aðstæðum.“

Að því loknu er þeim stofnunum falið að hafa umsjón með gerð áhættumats fyrir þau fimm svæði, þar sem umsóknir um sjókvíaeldi bíða afgreiðslu hjá Matvælastofnun, og, þar sem við á, leggja mat á mótvægisaðgerðir sem unnt er að grípa til í því skyni að tryggja öruggar siglingar. Vinnu skal forgangsraðað í samráði við Matvælastofnun.

Ekki kom fram í svörunum hvenær vænta megi þess að áhættumatið liggi fyrir.

DEILA