Rýmri heimild fyrir bréfakassasamstæður í þéttbýli

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um póstþjónustu frá 2019. 

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að rýmka til muna heimildir alþjónustuveitanda til að nýta bréfakassasamstæður í þéttbýli.

 Könnun, sem ráðuneytið gerði í fyrra, hafi leitt í ljós jákvæða afstöðu hjá almenningi gagnvart bréfakassasamstæðum en könnunin var gerð að tilstuðlan starfshóps um alþjónustu í póstdreifingu. Póstbox fyrir pakkasendingar hafi einnig fengið góðar viðtökur hér á landi. Aukin notkun bréfakassasamstæðna geti því haft sparnað í för með sér og minnkað alþjónustukostnað ríkissjóðs.

Í greinagerð með frumvarpinu segir að lagt sé til að heimildir til að nýta bréfakassasamstæður verði rýmkaðar til muna en í dag er alþjónustuveitanda aðeins heimilt að setja upp á einum stað bréfakassasamstæður fyrir alla móttakendur póstsendinga í þéttbýli. Í gildandi lögum er þannig gert ráð fyrir að alþjónustuveitanda sé heimilt að setja upp bréfakassasamstæðu í fámennu þéttbýli. Í fámennu þéttbýli sé þannig nóg að pósturinn stoppi á einum stað til að spara tíma á ferð sinni um landið. Verið er að yfirfæra þessa hugmynd yfir á stærra svæði.

Verði frumvarpið að lögum mun alþjónustuveitandi geta ákveðið í samráði við viðkomandi sveitarfélag að setja upp bréfakassasamstæður í tilteknu póstnúmeri þannig að íbúar geti sótt póstinn sinn í göngufæri. Þannig myndi bréfaútburður í hvert hús nánast líða undir lok. 

DEILA