Merkir Íslendingar – SIGRÍÐUR KRISTÍN JÓNSDÓTTIR

Sigríður Kristín Jónsdóttir fæddist í Minna-Garði í Mýrahreppi í Dýrafirði 5. október 1917.

Foreldrar hennar voru Jón bóndi Ólafsson frá Hólum í Þingeyrarhreppi og Ágústa Guðmundsdóttir frá Brekku, einnig í Þingeyrarhreppi.

Systkini Kristínar, þau er náðu fullorðinsárum, fæddust öll á Gemlufalli í Mýrahreppi.

Sigríður Kristín ólst upp á Gemlufalli, ferjustaðnum vestur yfir Dýrafjörð, réð bátum til hlunns með föður sínum, elti lömbin inn hlíð eða dal, sótti barnaskóla á Lambahlaði, tók af lífi og sál þátt í blómlegu félags- og menningarlífi sveitarinnar, sveitar sr. Sigtryggs, Kristins á Núpi, Björns skólastjóra og fjölda annarra allt frá Lambadal út til Sæbóls á Ingjaldssandi.

Kristín gekk í Núpsskóla þar sem hún kynntist arftaka sr. Sigtryggs, sr. Eiríki Júlíusi Eiríkssyni frá Eyrarbakka, sem síðar varð einnig skólastjóri á Núpi um 18 ára skeið. Þau giftust 6. nóv. 1938.

Húsmæðranám stundaði Kristín í Kvennaskólanum í Reykjavík en búskap sinn hófu þau í nýju prestshúsi á Núpi 1940 og þá fæddist fyrsti sonurinn, Aðalsteinn, síðar skólameistari Kvennaskólans. Átta börn til viðbótar eignuðust þau á Núpi.

Árið 1960 fluttu þau hjón suður til Þingvalla þar sem sr. Eiríkur gerðist þjóðgarðsvörður með prestsskap sínum og hér syðra fæddust 10. og 11. Barnið.

Á Þingvöllum voru þau Kristín uns sr. Eiríkur lét af störfum fyrir aldurs sakir og fluttu á æskuslóðir hans í Flóanum, nánar tiltekið á Hörðuvelli 2 á Selfossi.

Á afmælisdegi Kristínar 1984 gáfu þau hjónin Héraðs- og bæjarbókasafninu á Selfossi bókasafn sitt, mikið að vöxtum, ákveðið tákn ævistarfs þeirra og hugsjóna.

Sr. Eiríkur lést 11. janúar 1987. Eftir fráfall sr. Eiríks dvaldi Kristín nokkrar vikur á ári hjá dætrum sínum en hélt annars sitt hús á Heimahaga 8.

 Árið 1994 var Kristín sæmd heiðursmerki fálkaorðunnar fyrir húsmóðurstörf sín um dagana.

Sigríður Kristín lést á sjúkrahúsinu á Selfossi þann 17. febrúar 1999.


Útför Kristínar var gerð frá Selfosskirkju  þann 27. febrúar 1999. Jarðsett var í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

DEILA