Krefur Ríkisendurskoðanda um skýringar á birtingu um persónuleg málefni

Jóhann Guðmundsson, fyrrverandi skrifstofustjóri í Atvinnuvegaráðuneytinu krefur Ríkisendurskoðanda um skýringar á því að birtar voru persónugreinanlegar upplýsingar um hann í skýrslu um sjókvíaeldi sem birt var á dögunum í bréfi sem hann hefur sent Ríkisendurskoðanda. Telur Jóhann að það hafi verið með öllu ástæðulaust og ekki í þágu almannahagsmuna. Fjölmiðlaumræðan í kjölfar skýrslunnar hafi verið honum til stórfellds tjóns og væri unnt að tala um að hún hafi leitt til ærusviptingar.

Jóhann vísar til þagnarskylduákvæðis í lögum um Ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga þar sem mælt er fyrir um þagnarskyldu á því sem leynt á að fara vegna almanna- eða einkahagsmuna. Þau ákvæði komi ekki í veg fyrir birtingu upplýsinga ef Ríkisendurskoðandi telur það nauðsynlegt. Upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga skuli þó aðeins birta að almannahagsmunir vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Fer hann fram á að Ríkisendurskoðandi skýri hvernig veiting þessara upplýsinga samrýmist ákvæðum 12. gr laga um Ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

Jóhann Guðmundsson gerir alvarlegar athugasemdir við birtingu upplýsinga um lögreglurannsókn sem fór fram á seinkun birtinga laga um fiskeldi árið 2019. Upplýsingar um þá rannsókn hafi ekki komið fram opinberlega áður og þær séu sérstaklega viðkvæmar fyrir þann sem grunsemdir höfðu beinst að.

Telur Jóhann að í ljósi þess að rannsókninni var hætt og málið fellt niður, eins og frá var greint í fréttaskýringu í Bæjarins besta í gær, með þeim ummælum að ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi misnotað aðstöðu sína sér eða öðrum til hagsbóta eða hallað réttindum einstakra manna eða hins opinbera, sé umfjöllunin í skjókvíaskýrslunni ástæðulaus. Fram hafi komið í rannsókninni og sé tekið fram í bréfi héraðssaksóknara að tilgangur þess að fresta birtingu laganna um 3-4 daga hafi verið að gæta að hagsmunum ríkisins og koma í veg fyrir skaðabótakröfur á hendur því.

Umfjöllun Ríkisendurskoðanda um þennan atburð hafi verið á þann hátt að dregin var upp önnur mynd en fram kemur í bréfi héraðssaksóknara og að frestunin hafi verið fiskeldisfyrirtækjum til fjárhagslegs ávinnings. Það hafi svo litað fjölmiðlaumfjöllun um skýrsluna, Jóhanni til álitshnekkis. Hefur hann til skoðunar bótarétt sinn vegna þessa.

DEILA