Könnun: fiskeldi bætir búsetuskilyrði

Viðhorf Vestfirðinga er almenn mjög jákvætt til fiskeldis samkvæmt könnun Vestfjarðastofu sem birt var í gær. Leitað var eftir afstöðu almennings til allmargra fullyrðinga og spurninga um fiskeldi og samgöngur.

Spurningar voru sendar út í september síðastliðinn til nærri 5000 manns á Vestfjörðum og bárust  525 svör eða 10,6% svarhlutfall. Við úrvinnslu gagna var Vestfirðingum skipt í fjóra hópa:

Ísafjörður – póstnúmer 400

Norðanverðir Vestfirðir – póstnúmer 401-430 og 470-471

Sunnanverðir Vestfirðir 450-466

Reykhólar og Strandir – póstnúmer 380-381 og 500-524.

Af þeim sem svöruðu voru 34% búsettir á Ísafirði, 28% á norðanverðum Vestfjörðum, 14% í Reykhólasveit og í Strandasýslu og 24% á sunnanverðum Vestfjörðum.

77% telja að fiskeldi bæti búsetuskilyrðin

Fyrsta fullyrðingin sem svarendur tóku afstöðu til var þessi: fiskeldi bætir búsetuskilyrði þar sem það er stundað. Þeir sem voru sammála þessu voru sjö sinnum fleiri en hinir sem voru ósammála. Mjög eða frekar sammála voru 77% svarenda og mjög og frekar ósammála voru aðeins 11%.

Þegar svörin eru greind eftir búsetu svarenda er afstaðan svipuð á þremur svæðum en töluvert frábrugðin á því fjórða, Reykhólum og Strandasýslu.

Á Ísafirði voru 76% sammála því að fiskeldið bæti búsetuskilyrðin og 12% ósammála. Á norðanverðum Vestfjörðum eru 82% sammála en aðeins 6% ósammála. Á sunnanverðum Vestfjörðum eru 90% sammála og 4% ósammála. Í Reykhólasveit og á Ströndum kveður við annan tón. Þar voru aðeins 46% sammála og 30% ósammála því að fiskeldið bæti búsetuskilyrðin.

Meðal annarra svara má nefna að 80% eru sammála því að fiskeldinu fylgi mörg afleidd störf, 67% að því fylgi vel launuð sérhæfð störf, 65% telja að almennt þjónustustig hækki í sveitarfélögunum, 73% að fasteignir hækki í verði, 75% sammála því að það efli fyrirtæki í öðrum greinum og 75% voru sammála því að fiskeldið hefði þau áhrif á byggðaþróun að snúa vörn í sókn.

67% jákvæð gagnvart fiskeldi

Spurt var sérstaklega: Þegar á heildina er litið, hversu jákvæður eða neikvæður ert þú gagnvart fiskeldi á þínu svæði? Svörin voru mjög afgerandi. Tveir þriðju hlutar svarenda, 67%, sögðust vera mjög eða frekar jákvæð og 23% voru mjög eða frekar neikvæð gagnvart fiskeldi.

Marktækur munur reyndist á afstöðunni eftir kynjum. Karlar voru 74% jákvæðir en konur 62%. Meðal karla voru 17% neikvæðir og 26% kvenna.

Greint eftir svæðum þá voru 64% jákvæðir á Ísafirði og 26% neikvæðir. Á norðanverðum Vestfjörðum voru 78% jákvæðir en 11% neikvæðir. Á sunnanverðum Vestfjörðum voru 80% jákvæðir og 9% neikvæðir. Á fjórða svæðinu, Reykhólasveit og Ströndum voru neikvæðir fleiri en jákvæðir. Þar reyndist 31% svarenda vera jákvæðir gagnvart fiskeldi en 56% neikvæðir.

Svörin eru einnig greind eftir aldri. Þar var mestur stuðningur við fiskeldið í elsta aldurshópnum 61 árs og eldri. Þar voru 73% jákvæð en 19% neikvæð. Minnstur var stuðningurinn í yngsta aldurshópnum 18-30 ára, en þar voru þó 59% jákvæð og 27% neikvæð.