Formaður svæðisráðs: veit ekki af hverju athugasemdir um siglingar komu ekki fram fyrr

Magnús Jóhannesson, formaður svæðisráðs um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði.

Magnús Jóhannesson, formaður svæðisráðs um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði segist ekki kunna ekki skýringu á því af hverju kröfur um áhættumat siglinga höfðu ekki komið fram í leyfisveitingaferli umræddra umsókna um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og umhverfismati heldur fyrst á lokastigi umfjöllunar svæðisráðs um gerð strandsvæðaskipulagsins síðastliðið haust.

Það var ekki fyrr en með viðbótarumsögnum frá Samgöngustofu og Vegagerðinni við tillögunni um strandsvæða-skipulagið sem þetta mál kom upp. Í fyrri umsögnum höfðu stofnanirnar ekki minnst á þetta. Ákvörðun Innviðaráðuneytisins um að láta framkvæma áhættumat siglinga varð til þess að að frestað var að gefa út leyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi sem loks voru tilbúin fyrir jól eftir langa bið.

Magnús var inntur eftir því hvort Alþjóðlega siglingastofnunin gerði kröfu um áhættumat siglinga. Í svari hans segir að krafan um áhættumat siglinga sem sett er fram í tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða, „byggist á ábendingum sem fram komu í athugasemdum frá Samgöngustofu og Vegagerðinni við tillögu að strandsvæðisskipulaginu sem auglýst var í júní 2022. Krafan mun byggjast á kröfum SOLAS samningsins um öryggi mannslífa á hafinu sem Ísland er aðili að og ber að fylgja. Þar kemur m.a. annars fram að vinna á áhættumat vegna siglingaöryggis þegar sett eru upp leiðarmerki fyrir siglingar. Þegar ný starfsemi kemur inn á svæði sem hefur fram að því verið opið fyrir siglingum er næsta víst að gera þurfi breytingar á merkingum fyrir siglingar, svo sem á siglingaljósum. Um þetta var fjallað í starfshópi sem skipaður var af Innviðaráðuneytinu til að fjalla nánar um öryggi siglinga og tillögur svæðisráðsins um strandsvæðisskipulagið.“

Magnús Jóhannesson var inntur eftir því hvort hann teldi rétt að krafa svæðisráðs um áhættumat siglinga komi í veg fyrir útgáfu nýrra eldisleyfa í Ísafjarðardjúpi sem voru tilbúin fyrir jól en svar barst ekki við því.

DEILA