Áhættumat siglinga: ætti ekki að koma í veg fyrir útgáfu eldisleyfa í Ísafjarðardjúpi

Aðalsteinn Óskarsson, Ísafirði, sem sæti á í svæðisráði um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði segir að fram komi í skýrslu starfshóps Skipulagsstofnunar, Samgöngustofu og Vegagerðarinnar um öryggi siglinga frá nóvember 2022 það mat starfshópsins að „í flestum tilvikum er talið mögulegt að tryggja siglingaröryggi með breyttum merkingum og að viðbótarákvæðum í strandsvæðaskipulagi um fyrirkomulag búnaðar.

Með öðrum orðum sagt, þá ætti áhættumat siglinga ekki að koma í veg fyrir útgáfu eldisleyfa í Ísafjarðardjúpi en úrlausnarefnin er misþung eftir staðsetningu.“

Aðalsteinn segir því „afskaplega brýnt að nýr vinnuhópur Vegagerðar, Samgöngustofu og Landshelgisgæslu vinni sig hratt í gegnum málið og skili niðurstöðum nú í febrúar og vinna við áhættumat taki þá þegar við.“

Þessi vinnuhópur var skipaður í lok janúar sl. og hefur það verkefni að útbúa matsferil fyrir áhættumat siglinga og á að skila af sér fyrir 24. febrúar 2023. Að því loknu hefst vinna við að gera áhættumatið fyrir þau svæði sem bíða afgreiðslu hjá Matvælastofnun og gera tillögur um mótvægisaðgerðir þar sem þess er þörf. Ljúka skal þessu svo fljótt sem auðið er.

Beðið er svara frá Innviðaráðuneytinu um hvenær vænta megi þess að ofangreint liggi fyrir.

DEILA