Verkvest: hafa ekki fengið stuðning við jöfnun útgjalda

Finnbogi Sveinbjörnsson,formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segist ekki gera athugasemd við kröfur Eflingar um sérstaka framfærsluuppbót til þess að mæta hærri húsnæðiskostnaði leigjenda á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Hann minnir hins vegar á að Verkalýðsfélag Vestfirðinga og fleiri verkalýðsfélög hafi lagt fram kröfur um aukna jöfnun húshitunarkostnaðar og um ívilnandi aðgerðir til stuðnings þeim sem búa fjarri ýmissi kjarnaþjónustu og bera af þeim sökum hærri kostnað svo sem vegna heilbrigðisþjónustu. Finnbogi segir að þetta hafi verið í kröfugerð Vestfirðinga síðast en ekki fengið stuðning hjá verkalýðsfélögum á höfuðborgarsvðinu, svo sem Eflingu.

Kröfurnar hafi beinst að stjórnvöldum en ekki atvinnurekendum en hafi ekki náð neinum slagkrafti vegna skorts á stuðningi innan verkalýðsfélaganna að sögn Finnboga. Kröfur Eflinga nún eru settar fram á hendur atvinnurekenda í formi þess að greidd verði hærri laun á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar. Finnbogi telur að ef Efling nái árangri með kröfunni umframfærsluuppbót muni það verða til þess að laun annarra muni hífast upp.