Strandabyggð: vilja fella niður vinnsluskyldu á byggðakvóta

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt þær reglur um úthlutun byggðakvóta sem hún vill hafa. Gerir sveitarstjórnin ráð fyrir að fjórðungur byggðakvótans verði skipt jafnt milli fiskiskipa og að 75% úthlutaðs byggðakvóta verði skipt eftir lönduðum afla síðasta fiskveiðiárs, 2021/2022.

Þá vill sveitarstjórnin að Vinnsluskylda samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1370/2022 verði felld niður en að löndunarskylda verði á þeim afla sem telst til byggðakvóta í byggðarlaginu.

Eru þetta sömu reglur og sveitarstjórn samþykkti á síðasta ári og var afnám vinnsluskyldunnar rökstudd með því að engin vinnsla væri i sveitarfélaginu. Matvælaráðuneytið félst þá á tillögur sveitarstjórnar.

Ráðuneytið tekur samþykkt sveitarstjórnar til athugunar , en búast má við því að hún verði staðfest rétt eins og á síðasta fiskveiðiári.

Alls eru 130 tonn byggðakvóta til úthlutunar í Strandabyggð.