Maskína: Þórdís Kolbrún í þriðja sæti

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Þórdís K. Gylfadóttir (D) , utanríkisráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis er í þriðja sæti varðandi frammistöðu ráðherra í starfi í nýrri könnun Maskínu. Átta prósent svarenda segja hana hafa staðið sig best og aðeins Ásmundur Einar Daðason (B) og Katrín Jakobsdóttir (V) fá fleiri atkvæði í könnuninni. Ásmundur Einar er efstur með 13,6% og Katrín er í öðru sæti með 9,7%.

Þeir ráðherrar sem fá minnstan stuðning eru Svandís Svavarsdóttir (V), Lilja Alfreðsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson (V) sem fær aðeins 1,6% á þennan mælikvarða.

Á hinum skalanum yfir þá sem staðið hafa sig verst er Þórdís Kolbrún aðeins með 1,8% og er þar í fjórða sæti. Ásmundur Einar og Sigurður Jóhannsson (B) fá þar bestu útkomu með aðeins 1% svarenda sem telja þá hafa staðið sig verst.

Tveir ráðherrar fá áberandi lökustu mælinguna, 26,8% segja Bjarna Benediktsson (D) hafa staðið sig verst og 16,3% nefna Jón Gunnarsson (D). Langt er svo í næstu ráðherra , Lilja Alferðsdóttir (B) fær 7,9% og Katrín Jakobsdóttir 7,3%.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 967, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 20. desember 2022.

DEILA