Ísafjarðarbær: hækka verulega afslátt á leikskólagjöldum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerði á síðasta fundi breytingu á reglum um tekjutengdan afslátt á leikskólagjöldum og hækkaði verulega tekjumörkin fyrir afslætti. Í byrjun nóvember var samþykkt að veita 40% afsláttur af vistunargjaldi til einstaklinga með mánaðartekjur allt að 401.917 kr. og foreldrum í sambúð með mánaðartekjur allt að 643.083 kr.

Í sðustu viku var reglunum breytt að tillögu fræðslunefndar þannig að miðað er við heildartekjur heimilis og mega foreldrar/forráðamenn vera með mánaðartekjur allt að 750.000 kr. og fá afsláttinn af leikskólagjöldunum. Fyrir einstakling er hækkunin á tekjumörkunum 86,5% og hækkunin er tæp 17% fyrir foreldra í sambúð.

Ekki liggur fyrir mat á tekjuáhrifum breytingarinnar fyrir bæjarsjóð.

Áfram verður í gildi systkinaafsláttur en hann er 30% með öðru barni og frítt fyrir þriðja barn af leikskólagjaldi/dagvistargjaldi og hálfu aukagjaldi (8,5 tímar).

Hinar breyttu reglur taka gildi 1. febrúar 2023.

DEILA