Hvetjandi: 24,5 m.kr. hagnaður 2021

Hagnaður varð af rekstri Hvetjanda fyrir árið 2021 sem nam 24,5 m.kr. Einkum varð hann til vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa. Seld voru bréf í Snerpu, Símaverinu ehf og Norðureyrar ehf á Suðureyri fyrir samtals 34,4 m.kr. og keypt hlutabréf fyrir 9 m.kr. Aðalfundur félagsins var haldinn skömmu fyrir jól.

Hvetjandi hf. eignarhaldsfélag var stofnað í janúar 2004 af Ísafjarðarbæ og er þolinmóður fjárfestir. Tilgangur félagsins er að taka þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem rekin eru á grundvelli arðssjónarmiða, fela í sér nýmæli í atvinnulífi og eða eru mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á norðanverðum Vestfjörðum.

Hvetjandi á 19,23% hlutafjár í Fiskvinnslunni Íslandssögu á Suðureyri, 18,18% í Skútusiglingum ehf Ísafirði, 15,79% í Sætt og salt í Súðavík, 10% í Kampa ehf á Ísafirði, 9,68% í Vesturferðum á Ísafirði, 5,83% í Örnu ehf í Bolungavík, 21,4% í Skúrinni ehf samfélagsmiðstöð á Flateyri , 4,2% í Icelandic Sea Angling hf og 3,55% í Norðureyri ehf á Suðureyri.

Þá á Hvetjandi hlut í þremur fyrirtækjum í Strandasýslu, 14,39% í Laugarhóll ehf í Bjarnarfirði, 6,39% í Útgerðarfélaginu Skúla ehf og 4,08% í Fiskvinnslunni Drang ehf bæði á Drangsnesi.

Eignir Hvetjanda voru 260 m.kr. um síðustu áramót, þar af 251 m.kr. skuldlaust. Handbært fé var 114,9 m.kr. og jókst um 35 m.kr. á árinu.

Stjórnarformaður er Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík. Aðrir stjórnarmenn eru Arna Lára Jónsdóttir, Neil Shiran Þórisson, Guðbjörg Óskarsdóttir og Viktoría Rán Ólafsdóttir. Úr stjórn gekk Pétur Grétarsson og kom Viktoría Rán í hans stað.

Í upphafi árs og við lok þess voru 12 hluthafar í félaginu. Þeir eru, Byggðastofnun 38,17%, Ísafjarðarbær 19,09%,
Vestinvest 16,63%, Landsbankinn hf 13,97% Verkalýðsfélag Vestfirðinga 1,66%, Dress Up Games ehf 1,66%,
Bolungarvíkurkaupstaður 2,26%, Gildi lífeyrissjóður 1,36%, Tálknafjarðarhreppur 0,67%, Súðavíkurhreppur 1,64%
og Fiskvinnslan Íslandssaga hf. og Klofningur ehf. 0,21% hvort félag. Hlutafé í árslok nemur kr. 263.135.356 en
félagið á sjálft kr. 6.510.719 hlutafjárins eða 2,47%.

DEILA