Fiskeldisgjald verður 44% hærra en veiðigjald af þorski

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Fiskistofa hefur birt upplýsingar um fiskeldisgjald sem inheimt er af eldislaxi sem alinn er í sjóeldiskvíum. Á þessu ári er fiskeldisgjaldið 18,33 kr/kg af slægðum laxi. Gjaldið er helmingur þess eða 9,16 kr/kg af regnbogasilungi.

Fiskeldisgjald var sett á með lögum settum 2019 og hófst innheimtan árið 2020. Gjaldið er innleitt í áföngum og er það árið 2023 4/7 af fullu gjaldi. Næst ár verður innheimt 5/7 og fullt gjald verður innheimt frá og með 2026. Miðað við forsendur gjaldsins verður það þá 32,08 kr./kg.

Til samanburðar þá er veiðigjald af þorski 19,17 kr/kg af óslægðum þorski á þessu ári.

Fiskeldisgjaldið umreiknað í óslægðan lax er á þessu ári 15,76 kr/kg. Það verður 19,7 kr/kg á næsta ári og verður þá orðið hærra en veiðigjaldið og frá 2026, þegar fullt gjald verður innheimt, verður fiskeldisgjaldið 27,58 kr/kg. Þá verður fiskeldisgjaldið 44% hærra en veiðigjaldið af þorski í ár.

Hætt var við áform í síðasta mánuði um að hækkað fiskeldisgjaldið um 43% og ákveðið að bíða eftir niðurstöðu á endurskoðun stjórnvalda á stefnumörkun um fiskeldi sem stendur yfir og áformað að ljúki á árinu.

Verði staðið við áformin um hækkun fiskeldisgjaldsins mun það vera orðið 106% hærra en veiðigjaldið er af þorski í ár eða 39,44kr/kg af óslægðum fiski.

Umrædd endurskoðun nær einnig til sjávarútvegsins almennt og mun fjárhæð veiðigjaldsins vera þar undir.

DEILA