Byggðastofnun: tekjur hækkuðu 20% meira á sunnanverðu landinu

Byggðastofnun birti fyrir áramótin skýrslu þróunarsviðs stofnunarinnar um þróun atvinnutekna á landinu síðustu 10 árin, frá 2012-2021. Atvinnutekjur jukust um 50% á tímabilinu. Þær voru 972 milljarðar króna árið 2012 en 1.462 milljarðar króna 2021.

Hækkunin var hins vegar mjög misskipt eftir landssvæðum. Á suðvestanverðu landinu varð mun meiri hækkun atvinnutekna en annars staðar á landinu. Á Suðurnesjum jukust atvinnutekjur um 72% og um 53% á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi.

Í öðrum landshlutum varð hækkunin frá 33% á Norðurlandi vestra að 40% á Vesturlandi. Munurinn milli þessara tveggja svæða er um 20% sem atvinnutekjur hækka meira á sunnanverðu landinu en annars staðar.

Á Vestfjörðum hækkuðu atvinnutekjur um 39%, voru 21,5 milljarðar króna árið 2012 og 29,8 milljarðar króna árið 2021.

Tölurnar endurspegla að fjölgun starfa og þar með íbúa hefur verið mest á sunnanverðu landinu og að fjölgunin á Vestfjörðum, sem varð, hafi ekki náð meðalfjölguninni á landinu.

86% af aukingunni á sunnanverðu landinu

Þegar tölurnar eru greindar nánar kemur í ljós að 86% af hækkun atvinnutekna á tímabilinu er á sunnanverðu landinu, á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi. Atvinnutekju hækkuðu um 335 milljarða króna á höfuðborgarsvæðinu á þessu 10 ára tímabili, um 41 milljarð króna á Suðurnesjum og um 48 milljarða króna á Suðurlandi. Samtals varð hækkun atvinnutekna um 424 milljarð króna á þessum þremur landssvæðum af 490 milljarða króna hækkun atvinnuteknanna á landinu öllu eða 86,5%. Afgangurinn 66 milljarðar króna dreifist á öll önnur landsvæði frá Vesturlandi, um vestfirði, Norðurland og Austurland.

Atvinnutekjur í sjávarútvegi um 84 milljarðar króna árið 2021 og í fiskveiðum drógust þær saman um 30% frá 2012. Lítilsháttar aukning varð í fiskvinnslunni en engu að síður er sú atvinnugrein næstlægst í röðun atvinnugreina á tímabilinu og aðeins þróun atvinnutekna í fiskveiðum var verri. Þessar tölur segja að störfum er að fækka í sjávarútvegi.

Fiskeldi sexfaldast en samdráttur í fiskveiðum

Þar sem sjávarútvegur er hlutfallslega stór í atvinnu á Vestfjörðum má sjá af þessum tölum að sjávarútvegurinn skilaði ekki atvinnutekjum til þess að standa undir óbreyttu ástandi hvað þá vexti. Það sem til bjargar kemur er að mikil aukning verður í atvinnutekjum af fiskeldi. Þar verður mest hlutfallsleg aukning á árabilinu 2012-2021. Heildaratvinnutekjur í greininni hækkuðu úr 0,8 milljörðum í 4,5 milljarða króna eða um 463%.

Stór hluti atvinnutekna í fiskeldi er á Vestfjörðum og fer ekki á milli mála að vaxandi eldi hefur vegið upp samdráttinn í sjávarútvegi og skilað umtalsverðu til þess að 39% hækkun varð á atvinnutekjum á Vestfjörðum á tímabilinu.

Háar atvinnutekjur á íbúa

Atvinnutekjur á íbúa eru háar á Vestfjörðum og voru þær árið 2021 þær næst hæstu á landinu 4,1 m.kr. Hæstar voru þær á Austurlandi 4,4 m.kr. Höfuðborgarsvæðið var í þriðja sæti með 4,1 m.kr. í atvinnutekjur á íbúa.

Gögn voru fengin frá Hagstofu Íslands sem vann þau úr upplýsingum frá Skattinum. Gögnin innihalda tekjur einstaklinga, þ.e. laun og reiknað endurgjald, hér eftir nefndar atvinnutekjur. Þetta eru ekki heildartekjur einstaklinga þar sem upplýsingarnar innihalda ekki greiðslur eins og fjármagnstekjur, bætur almannatrygginga, greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðra liði sem ekki teljast vera atvinnutekjur.

Gögnin innihalda því heldur ekki hagnað af rekstri einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu. Tekjur einstaklinga fylgja lögheimili einstaklinga en ekki lögheimili eða staðsetningu launagreiðanda.

DEILA