Byggðastofnun: styrkir meistaranema á Vestfjörðum

Byggðastofnun hefur veitt fjóra styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðamála. Styrkirnir eru fjármagnaðir af byggðaáætlun. Heildarupphæð styrkjanna er ein milljón króna. Hver styrkur er að upphæð 250.000 kr. 

Tveir styrkþeganna eru á Vestfjörðum. Annars vegar er það Elizabeth Riendeau, Háskólasetri Vestfjarða. Verkefni hennar fjallar um hverjir burðir og þolmörk samfélags eru við að aðlagast skemmtiferðaskipaiðnaðinum. Skoðað verður hvert umburðarlyndi og þol íbúa er á Ísafirði og í nærliggjandi byggðarlögum í tengslum við umfangsmikla fjölgun ferðamanna sem koma með skemmtiferðaskipum til landsins. Í kynningu á verkefninu segir að það séu margvíslegir hagsmunir fólgnir í að tryggja að vöxtur ferðaþjónustunnar sé í sem bestri sátt við íbúa á Vestfjörðum og þróist í samræmi við væntingar þeirra því atvinnugreinin og vægi hennar fer hlutfallslega stækkandi í landshlutanum.

Hinn styrkþeginn er Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, Ísafirði, en hún vinnur verkefnið við Háskólann á Akureyri.

Það fjallar um heilbrigðiskerfið og snjóflóð. Greint verður frá upplifun og líðan heilbrigðisstarfsfólks sjúkrahússins á Ísafirði af umönnun fórnarlamba mannskæðra náttúruhamfara á Íslandi (snjóflóðanna á Súðavík 1995). Auk þess að varpa ljósi á viðhorf til áframhaldandi búsetu og starfa eftir að hafa unnið við þær aðstæður sem þarna sköpuðust. En eftir atburðina sköpuðust ófyrirséðar aðstæður sem mögnuðust upp vegna lokaðra samgönguleiða og margra daga óveðurs. Starfsmenn á staðnum báru því hitann og þungann af líkamlegri og andlegri umönnun. Hvernig þessir starfsmenn hafa unnið úr þessari reynslu og hvort hún hefur haft áhrif á þeirra líf í kjölfarið er viðfangsefni rannsóknarinnar.

DEILA