Patreksfjörður: breytingar á kvíaeldi staðfestar að hluta til

Úrskurðarnefnd hefur lokið umfjöllun um kæru Marinós Thorlacius eiganda Efri-Tungu II og helmings hlutar í Efri-Tungu í Örlygshöfn í vestanverðum Patreksfirði um breytt rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og breytingu á hvíldartíma. Bæði Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gáfu út í sumar ný leyfi fyrir eldinu. Hin breyttu leyfi voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi krafðist þess jafnframt krafist að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 25. ágúst 2022 var þeirri kröfu kæranda hafnað.

Skipulagsstofnun hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að breytingarnar á staðsetningu og hvíldartíma þyrftu ekki að fara í sjálfstætt umhverfismat. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar, en því var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. september 2022.

Arctic Fish sótti einnig um heimild til þess að nota ásætuvarnir á kvíunum. Skipulagsstofnun taldi að sú breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og úrskurðaði að breytingin þyrfti ekki að fara í sérstakt umhverfismat. Það var kært til úrskurðarnefndarinnar  með kröfu um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Því hafnaði úrskurðarnefndin með úrskurði uppkveðnum 29. september 2022.

Kærandi lagðist sérstaklega gegn nýju kvíastæði utan við Örlygshöfn og stækkun kvíastæðisins við Kvígindisdal, en það er stækkað um 100 metra. Rökstuðningur kæranda var að Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en þar að auki sé æðarvarp meðal hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggi á því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa sem leiði af breytingum rekstrarleyfisins.

Í rökstuðningi fyrir breytingunum er bent á að ekki sé verið að auka við eldið með þeim bæði í Patreksfirði og Tálknafirði heldur að færa það til þannig að heppilegra sé miðað við strauma og það verði til þess að dreifa betur úr lífrænum efnum og minnka þannig áhrif á botndýralíf.

Arctic Fish féll frá áformum um tvö eldissvæði í Patreksfirði en sótti þess í stað um stækkun á afmörkun eldissvæðis við Kvígindisdal þannig að það nái yfir stærra svæði og þar með Háanes.

Fram kemur að eldissvæði ASF við Kvígindisdal sé staðsett sunnan megin í Patreksfirði og sé dýpi á svæðinu á milli 50-60 m. Við Háanes sé dýpi 10-60 m en áætlað er að kvíar verði staðsettar þar sem dýpi er á milli 40-57 m. Straummælingar við Háanes hafa farið fram en þar eru sterkir straumar og vatnsskipti góð. Staðsetningin sé því talin henta vel til fiskeldis bæði ef litið er til dreifingu lífrænna efna og fiskivelferðar. Í gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að nýta svæðið milli kvíastæða.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar (um að breytingin þurfi ekki í sjálfstætt umhverfismat) um stækkun á eldissvæðinu við Kvígindisdal segir að Landhelgisgæslan hafi ekki gert athugasemd við upphaflega afmörkun eldissvæða við Kvígindisdal og Háanes. Breytt afmörkun „skarar ekki hefðbundna siglingaleið um fjörðinn. Þá benda fyrirliggjandi gögn til þess að stækkað eldissvæði við Kvígindisdal sé staðsett á þeim stað í firðinum þar sem umferð báta er hvað minnst, að undanskilinni umferð vegna núverandi eldis. Jafnframt ber að hafa í huga að kvíaþyrpingar munu eingöngu ná yfir lítinn hluta eldissvæðisins hverju sinni og siglingar verða áfram mögulegar innan stórs hluta eldissvæðisins.“

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er að staðfesta útgefið leyfi og þar með breytingar á staðsetningu kvíastæða og hvíldartíma nema hvað varðar kvíastæðið utan Kvígindisdals. Breytingar varðandi það voru felldar úr gildi þar sem hið kærða leyfi er að hluta til innan siglingageira Ólafsvita. Finnur úrskurðarnefndin að því að ekki hafi verið leitað til Samgöngustofu við undirbúning hins kærða rekstrarleyfis.

DEILA