Nýtt raðhús á Reykhólum

Fv. Indriði Þröstur Gunnlaugsson, Guðmundur H. Jóhannsson, Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir. Mynd: Reykhólavefurinn.

Nýlega var hafin bygging á fjögurra íbúða raðhúsi á Reykhólum. Það er leigufélagið Bríet sem verður eigandi að byggingunni en  Landsbyggðarhús ehf annast framkvæmdir.

Frá Bríeti ehf. var Guðmundur H. Jóhannsson verkefnastjóri eignaumsýslu, frá Landsbyggðarhúsum ehf. voru Indriði Þröstur Gunnlaugsson og Birgitta Sigursteinsdóttir eigendur, og frá Reykhólahreppi Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og Jóhanna Ösp Einarsdóttir formaður skipulags- húsnæðis- og bygginganefndar. Það voru í raun 4 skóflustungur, ein fyrir hverja íbúð.

Þetta hús kemur til með að bæta að nokkru úr brýnni þörf fyrir húsnæði á Reykhólum en samt má segja að nú þegar sé eftirspurn eftir 2 íbúðum í viðbót.

Á Reykhólavefnum er sagt frá athöfninni og að henni lokinni á lóðinni við Hellisbraut 58 – 64, þáðu viðstaddir veitingar í boði Landsbyggðarhúsa ehf. á Reykhólar Café. Þar var slegið á létta strengi og Guðmundur sagði að það væri engin áhætta að byggja á stað með þessu útsýni, en Breiðafjarðarbotninn, Innsveitin og Skarðsströndin blasa við frá byggingarstaðnum.

DEILA