Meðalverð á jólamat svipað hjá Bónus og Krónunni

Í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat sem framkvæmd var þann 13. desember var Bónus var oftast með lægsta verðið.

Verð á 137 matvörum var kannað og var Bónus með lægsta verðið í 83 tilvikum, Fjarðarkaup í 22 tilvikum, Krónan í 16, Nettó í 12 tilvikum.

Heimkaup var oftast með hæsta verðið, í 51 tilviki, Iceland í 38 tilvikum og Hagkaup í 30 tilvikum. Fjarðarkaup átti flestar vörur af þeim sem kannaðar voru eða 136 af 137 en Heimkaup fæstar, 84.

Oft var einungis nokkurra króna munur á verði hjá Bónus og Krónunni í könnuninni og var Bónus að meðaltali 4,5% frá lægsta verði en Krónan 4,7%.

Bónus var oftast með lægsta verðið, í 83 tilvikum af 137. Í mörgum tilfellum var þó einungis einnar krónu munur á verði milli Bónuss og Krónunnar.

Kjörbúðin var með þriðja lægsta meðalverðið á þeim vörum sem voru til skoðunar í könnuninni sem var að meðaltali 9,6% frá lægsta verði. Til samanburðar var verð hjá Nettó að meðaltali 10,4% frá lægsta verði og 12,2% í Fjarðarkaup. Heimkaup var að meðaltali lengst frá lægsta verði, 34%.

Hafa ber í huga að þetta er einungis meðalverð á þeim vörum sem könnunin nær til og er því ekki hægt að fullyrða almennt um verðlag í verslununum út frá því þó könnunin gefi ákveðnar vísbendingar.

DEILA